Fótbolti

Alfons ekki með Íslandi til Albaníu

Sindri Sverrisson skrifar
Alfons Sampsted verður ekki í landsliðstreyjunni þegar Ísland mætir Venesúela og Albaníu.
Alfons Sampsted verður ekki í landsliðstreyjunni þegar Ísland mætir Venesúela og Albaníu. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefur misst út byrjunarliðsmann fyrir komandi landsleiki, gegn Venesúela á fimmtudaginn og gegn Albaníu í næstu viku.

Hægri bakvörðurinn Alfons Sampsted, sem byrjaði alla þrjá leikina í Þjóðadeildinni í júní, hefur neyðst til að draga sig úr íslenska hópnum vegna meiðsla.

Alfons var í liði Bodö/Glimt gegn Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í gær, í 1-1 jafntefli, en fór meiddur af velli eftir um klukkutíma leik.

Í hans stað hefur Arnar Þór Viðarsson kallað á Höskuld Gunnlaugsson, leikmann toppliðs Breiðabliks úr Bestu deildinni.

Höskuldur hefur aðeins á síðustu misserum spilað sem hægri bakvörður fyrir Blika, eftir að hafa áður verið framar á vellinum, en hann er þó eini leikmaðurinn í íslenska hópnum núna sem spilar þá stöðu fyrir sitt félagslið.

Ísland mætir Venesúela á fimmtudaginn í vináttulandsleik í Austurríki en heldur svo til Albaníu til að spila síðasta leikinn í riðli Íslands í Þjóðadeildinni. Áður en að þeim leik kemur spila Ísrael og Albanía leik þar sem Ísrael getur með sigri tryggt sér efsta sætið í riðlinum. Að öðrum kosti verður leikur Albaníu og Íslands úrslitaleikur um efsta sætið en liðið sem endar efst kemst upp í A-deild Þjóðadeildar, fær sæti í 2. styrkleikaflokki fyrir undankeppni EM 2024, og öruggt sæti í umspili fyrir EM 2024 ef á þarf að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×