Innlent

Ís­lenskar konur slösuðust eftir að loft­belgur brot­lenti

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Loftbelgir í Frakklandi. Mynd tengist frétt ekki beint.
Loftbelgir í Frakklandi. Mynd tengist frétt ekki beint. Getty/Pascal Deloche/Godong/

Loftbelgur með þrjá Íslendinga innanborðs lenti harkalega nærri Tours í Frakklandi í gærmorgun með þeim afleiðingum að tveir slösuðust.

Átta einstaklingar voru í flugi með loftbelg í Frakklandi í gærmorgun, þegar lenda átti loftbelgnum rakst horn körfu belgsins í jörðina og skalla aftur niður og körfunni hvolfdi. RÚV greinir frá þessu.

Hjónin Björg Kjartansdóttir og Freysteinn Jónsson og Guðlaug Þórs Ingvadóttir voru í loftbelgnum þegar óhappið varð og eru konurnar tvær sagðar hafa slasast.

Freysteinn sé fyrrverandi flugstjóri og hafi sagt flugið hafa gengið vel en það virðist hafa verið of lítið rými til lendingar til staðar. Hann segi lendinguna í raun hafa verið brotlendingu.

„Það sem að gerðist að þessi harkalega lending eða hreinlega brotlending verður til þess að hnén, fæturnir kastast í rauninni upp á við þegar karfan lendir og hnén fara í grindina og svo aftur,“ segir Freysteinn í samtali við RÚV.

Freysteinn hafi sjálfur komist út úr loftbelgnum og hafi þá hjálpað öðrum.

Meiðsli Guðlaugar séu brotið hné á öðrum fæti, hún sé í gipsi frá nára niður á ökkla og sé mjög hölt á hinum fætinum, hún megi ekki stíga í fótinn í 45 daga. Björg sé mjög aum í báðum fótleggjum og hnjám og geti illa stigið í fæturna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×