Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik-Afturelding 3-0 | Blikar halda lífi í von sinni um Íslandsmeistaratitilinn

Hjörvar Ólafsson skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik fór með sannfærandi 3-0 sigur af hólmi þegar liðið atti kappi við Aftureldingu í 16. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í rigningarsudda á Kópavogsvelli í kvöld.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en Blikar voru meira með boltann án þess að ná að brjóta á bak aftur varnarmúr Aftureldingar framan af leik. Gestirnir voru aftur á móti hættulegir í skyndisóknum sínum en Hildur Karítas Gunnarsdóttir var nösk við að koma hinni eldsnöggu Victoriu Kaláberovu í góðar stöður á vinstri vængnum.

Agla María Albertsdóttir lét svo meira og meira til sín taka eftir því sem leið á leikinn en hún og Bergþóra Sól Ásmundsdóttir voru iðnastar við að freista þess að brjóta ísinn. Eva Ýr Helgadóttir, markvörður Aftureldingar, varði hins vegar allt sem á markið kom í fyrri hálfleik.

Leikmenn Breiðabliks hafa fengið góða ræðu frá Ásmundi Arnarssyni í hálfleik en það var meiri kraftur í sóknaraðgerðum þeirra í upphafi seinni hálfleiks. Írena Héðinsdóttir Gonzalez kom Blikum yfir á 52. mínútu leiksins en hnitmiðað skot hennar rataði í fjærhornið og loksins var Eva Ýr sigruð í marki gestanna.

Skömmu fyrir markið hafði Karitas Tómasdóttir sloppið framhjá Evu Ýr en Veronica Parreno Boix sýndi mikla þrautseigju og kom í veg fyrir að Karitas skoraði með góðum varnarleik sínum.

Afturelding tók við sér í kjölfar þess að liðið lenti undir en Hildur Karítas slapp í gegn eftir rúmlega klukkutíma leik en skot hennar fór töluvert framhjá.

Agla María kom Breiðabliki í 2-0 þegar um það bil 20 mínútur voru eftir af leiknum en kantmaðurinn slökkti þá í von Aftureldingar um að fá eitthvað út úr þessum leik. Agla María lét skotið ríða af rétt utan vítateigs og boltinn söng í samskeytunum.

Helena Ósk Hálfdánardóttir átti svo góða innkomu inn í framlínu Breiðabliks en fljótlega eftir að hún kom inn á völlinn lagði Helena Ósk upp annað mark Öglu Maríu í leiknum og þriðja mark Blika.

Breiðablik er í öðru sæti deildarinnar með 33 stig eftir þennan sigur en Valur er á toppnum með 39 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Auk þess að vera níu stigum á undir Blikum eru Valskonur með átta mörkum betri markatölu.

Afturelding er hins vegar í níunda og næstneðsta sæti með 12 stig en liðið er fjórum stigum á eftir Keflavík sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæðið. Þór/KA er svo sæti ofar með 17 stig.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðablks. Vísir/Vilhelm

„Þetta var svolítið erfið fæðing og mér fannst detta niður á þeirra tempó framan af leik en við náðum að skipta um gír í seinni hálfleik. Við náðum upp góðum spilköflum og ég er heilt yfir sáttur við frammistöðu liðsins.

Við ræddum það í hálfleik að auka tempóið í okkar aðgerðum og við vorum skarpari í því sem við vorum að gera í seinni hálfleik. Við fengum fínar stöður og ágætis í þeim fyrri en spiluðum betur í þeim seinni," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks að leik loknum.

„Aðstæður voru vissulega nokkuð erfiðar í þessum leik en mér fannst við gera vel þrátt fyrir það. Við erum orðnar vön þessu og látum þetta ekki á okkur fá. Þrátt fyrir að vonin um að ná að hrifsa Íslandsmeistaratitilinn sé afar veik þá er hungur í hópnum að klára mótið vel," sagði hann enn fremur.

„Það er jákvætt að varamennirnir áttu góða innkomu í þessum leik og við náðum að nýta breiddina. Leikmannahópurinn hefur breyst töluvert í sumar en það er mikil samkeppni þessa stundina sem er bara af hinu góðu," sagði þjálfarinn en Helena Ósk bankaði fast á sæti í byrjunarliðinu með innkomu sinni.

Alexander Aron Davorsson, þjálfari Aftureldingar. Vísir/Hulda Margrét

„Leikplanið gekk nánast fullkomlega í fyrri hálfleik en við gerum okkur svo sekar um mistök í upphafi seinni hálfleiks og jafn gott lið og Breiðablik refsar fyrir slíkt. Við náum ekki að hreinsa boltann almennilega frá og þær nýta sér það," sagði Alexander Aron Davorsson, þjálfari Aftureldingar, svekktur. 

„Ég er hins vegar mjög ánægður hvernig við svörum því að lenda undir en við fáum þrjú dauðafæri áður en þær komast svo í 2-0 sem var mikið kjaftshögg. Eftir það var þetta orðið mjög erfitt en við gáfumst þó aldrei upp," sagði hann enn fremur. 

„Fyrst og fremst er ég stoltur af frammistöðu leikmanna minna. Það að mæta hingað í Kópavoginn og mæta sterku liði Blika án tveggja lykilleikmanna og gefa þeim alvöru leik er bara frábært. Við viljum máta okkur við bestu liðin og sýna að við getum strítt þeim. Það tókst í kvöld að mínu mati," sagði Alexander hreykinn. 

„Næst fáum við annað erfitt verkefni þegar við fáum Val í heimsókn. Það er bara gríðarleg spenna fyrir þeirri áskorun. Ég get lofað því að við munum láta Pétur Pétursson og leikmenn hans hafa fyrir því að sækja þau stig sem þær þurfa til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Við höfum enn fulla trú á því að við getum haldið okkur uppi og það verða 11 klárir leikmenn sem mæta Valskonum að Varmá eftir viku," sagði þjálfari Aftureldingar keikur. 

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar þurftu að sýna þolinmæði en sóknarþungi liðsins jókst eftir því sem leið á leikinn. Að lokum voru það einstaklingsgæði í sóknarmönnum Breiðabliks sem skópu sigurinn. 

Hverjar sköruðu fram úr?

Agla María var síógnandi á kantinum hjá Blikum en hún skoraði tvö marka Breiðabliks í leiknum. Þá var Karitas kraftmikil inni á miðsvæðinu og Helena Ósk nýtti vel þær mínútur sem hún fékk í fremstu víglínu.

Eva Ýr var góð í marki Aftureldingar en hún varði oft og tíðum vel. Hildur Karítas var svo potturinn og pannan í nokkrum vel útfærðum skyndisóknum Aftureldingar í leiknum.

Hvað gerist næst?

Breiðablik sækir Selfoss heim í næstu umferð deildarinnar á sunnudaginn eftir slétta viku á meðan Afturelding fær topplið deildarinnar, Val, í heimsókn á sama tíma.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira