Arsenal er komið aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 3-0 sigur á Brentford í dag.
Skytturnar áttu ekki í neinum vandræðum með Brentford en heimaliðið var langt frá sínu besta í dag. William Saliba kom Arsenal yfir með skalla eftir hornspyrnu Bukayo Saka á 17. mínútu. Rúmlega tíu mínútum síðar hafði Gabriel Jesus tvöfaldað forystuna og staðan 2-0 í hálfleik.
Í þeim síðari bætti Fabio Vieira við þriðja markinu og þar við sat. Lokatölur 3-0 Arsenal í vil.
Arsenal er á toppi deildarinnar með 18 stig eftir sjö leiki en þar á eftir kom Manchester City og Tottenham Hotspur með 17 stig. Brentford er í 9. sæti með níu stig.