Erlent

Armenar leita eftir hjálp

Samúel Karl Ólason skrifar
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu.
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu. AP/Tigran Mehrabyan

Yfirvöld í Armeníu segja her Aserbaísjan hafa hernumið hluta landsins í kjölfar umfangsmikilla og mannskæðra árása. Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, hefur biðlað til ráðamanna annarra ríkja sem voru áður á yfirráðasvæði Sovétríkjanna að tryggja fullveldi Armeníu.

Forsætisráðherrann hefur vísað í fjórða ákvæði stofnunarsamning Collective Security Treaty Organization, eða CSTO, sem eru varnarsamtök sem stofnuð voru árið 1992 af nokkrum ríkjum í Evrópu og Asíu, sem áður voru á yfirráðasvæði Sovétríkjanna.

Í dag eru Armenía, Hvíta-Rússland, Kasakstan, Kirgistan, Rússlands og Tadsíkistan í CSTO. Aserbaísjan, Georgía og Úsbekistan hafa sagt sig úr samtökunum.

Þarlendir fjölmiðlar segja Armena krefjast þess að aðildarríki CSTO sjá til þess að Aserar fari frá Armeníu. Beiðnin snýr einnig að svæðum við héraðið Nagorno-Karabakh, sem Armenar létu af hendi eftir átök árið 2020.

Sjá einnig: Armenar skila þriðja og síðasta landsvæðinu til Asera

Aserar hafa látið sprengjum rigna yfir herstöðvar, varðstöðvar og bæi í Armeníu undanfarna daga, eftir að þeir sökuðu Armena um ögrun. Árásirnar eru sagðar hafa valdið miklu mannfalli meðal hersveita Armena en Pashinyan tilkynnti í dag að minnst 105 hefðu fallið.

Aserar segjast hafa misst minnst 49 hermenn og hafa sagst tilbúnir til að afhenda lík allt að hundrað Armena sem fallið hafa í átökunum síðustu daga.

AP fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að líklegt sé að Aserar, sem hafi töluverða hernaðaryfirburði gagnvart Armeníu, vilji þvinga Armena til að framfylgja hraðar þeim skilyrðum sem þeim voru sett eftir átökin árið 2020.

Vert er að vara við myndefninu hér að neðan. Það gæti vakið óhug lesenda.


Tengdar fréttir

Átök brutust út milli Armena og Asera í morgun

Átök brutust aftur út milli hersveita Aserbaídsjan og Armeníu í morgun en tæplega hundrað létust í átökum ríkjanna í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá armenska varnarmálaráðuneytinu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×