Erlent

Lést eftir árás kengúru sem hann hélt sem gælu­dýr

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin í Redmond er sögð vera fyrsta mannskæða árás kengúru í Ástralíu frá árinu 1936.
Árásin í Redmond er sögð vera fyrsta mannskæða árás kengúru í Ástralíu frá árinu 1936. Getty

Ástralskur maður er látinn eftir að kengúra, sem hann hafði haldið sem gæludýr, réðst á hann.

Lögregla í Ástralíu segir að ættingi mannsins, sem var 77 ára, hafi komið að honum mjög særðum á heimili hans í Redmond, um 400 kílómetra suður af Perth á vesturströnd landsins, í gær.

Í frétt BBC segir að þegar sjúkralið hafi svo komið á vettvang hafi kengúran hindrað að þeir kæmust að manninum til að hlúa að sárum hans. Fór því svo að lögregla drap kengúruna, en maðurinn lést svo af völdum sára sinna á vettvangi.

Talsmaður lögreglu segir líklegt að kengúran hafi ráðist á manninn fyrr um daginn.

Um fimmtíu milljónir kengúra er að finna í Ástralíu og verða þær allt að níutíu kíló að þyngd og um tveir metrar á hæð. 

Árásir sem þessar eru sagðar sjaldgæfar í Ástralíu og er þetta fyrsta mannskæða árás kengúru í landinu frá árinu 1936.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×