Fótbolti

Val­geir Lund­dal á­fram á toppnum í Sví­þjóð | Öruggt hjá Bayern

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valgeir Lunddal (lengst til hægri) og félagar eru enn á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar.
Valgeir Lunddal (lengst til hægri) og félagar eru enn á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar. @bkhackenofcl

Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn í hjarta varnar Bayern München er liðið fór örugglega áfram í þýsku bikarkeppninni, lokatölur 7-0 Bæjurum í vil. Valgeir Lunddal Friðriksson er áfram á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar.

Bayern heimsótti Ingolstadt og var Glódís Perla í hjarta varnarinnar. Sigurinn var einkar öruggur eins og lokatölur gefa til kynna en staðan var orðin 2-0 eftir aðeins átta mínútur og var 4-0 er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Lokatölur 7-0 og Bayern komið áfram í þýska bikarnum. Á síðustu leiktíð fór liðið alla leið í undanúrslit þar sem það beið lægri hlut gegn Wolfsburg.

Í Svíþjóð gerðu Davíð Kristján Ólafsson og Valgeir Lunddal Friðriksson 1-1 jafntefli þegar lið þeirra Kalmar og Häcken mættust. Báðir léku allan leikinn í vinstri bakverði. Davíð Kristján nældi sér í gult spjald í leiknum.

Valgeir Lunddal og félagar í Häcken eru enn á toppnum, nú með 46 stig að loknum 22 umferðum. Kalmar er á sama tíma í 6. sæti með 37 stig.

Birkir Bjarnason spilaði tíu mínútur í dramatískum 3-2 sigri Adana Demirspor á Tyrklandsmeisturum Trabzonspor. Staðan var 2-1 Demirspor í vil þegar Birkir var sendur inn af bekknum. Gestirnir jöfnuðu en þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Samet Akaydin sigurmark leiksins.

Birkir og félagar eru nú í 4. sæti deildarinnar með 13 stig að loknum sex umferðum, aðeins stigi á eftir toppliði Konyaspor.

Aron Sigurðarson spilaði 76 mínútur í 2-1 tapi Horsens gegn Viborg á útivelli. Aron nældi sér í gult spjald í síðari hálfleik. Eftir leik kvöldsins er Horsens í 7. sæti með 11 stig eftir níu umferðir.

Sverrir Ingi Ingason og félagar í PAOK unnu 1-0 sigur á Lamia í grísku úrvalsdeildinni. PAOK er í 3. sæti með tíu stig að loknum fjórum umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×