Fótbolti

Sarri aftur í veseni | Sendi andstæðingnum puttann

Valur Páll Eiríksson skrifar
Maurizio Sarri er heitt í hamsi þessa dagana.
Maurizio Sarri er heitt í hamsi þessa dagana. Stöð 2 Sport

Maurizio Sarri, þjálfari Lazio, gæti verið í veseni hjá ítölskum fótboltayfirvöldum aðra vikuna í röð eftir leik liðsins við Hellas Verona um helgina. Síðustu helgi kvaðst hann búast við að lögfræðingur sinn yrði í yfirvinnu í vetur.

„Ég þarf að verja leikmenn mína, liðið og stuðningsmenn Lazio. Ég myndi endurtaka leikinn. Ég held að lögfræðingurinn minn muni hafa nóg að gera í vetur,“ sagði Sarri í síðustu viku þegar hann var spurður út í rannsókn ítalska knattspyrnusambandsins á umdeildum ummælum hans um helgina.

Sarri var ekki lengi að auka á vinnuálag lögfræðings síns en hann var afar ósáttur eftir að leikmaður Verona slapp við spjald þegar hann sló til Spánverjans Luis Alberto, leikmanns Lazio.

Hinn 63 ára Sarri brást ókvæða við og sendi puttann á bekk andstæðinganna, líkt og sást í beinni útsendingu leiksins á Stöð 2 Sport í gær. Hann var dreginn á brott af samstarfsmönnum sínum á meðan hann bölvaði starfsmönnum Verona í sand og ösku.

Myndskeið af atvikinu má sjá að neðan.

Ítalska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á málinu en þetta er önnur slík rannsóknin á hendur Sarri á jafnmörgum vikum. Hann lét hafa eftir sér umdeild ummæli um dómgæsluna í leik Lazio síðustu helgi og gæti því átt yfir höfði sér tvöfalt bann eða sektir frá sambandinu.

Lazio vann leikinn 2-0 og er með ellefu stig í sjötta sæti deildarinnar, aðeins þremur frá toppliði Napoli, í jafnri toppbaráttu á Ítalíu.

Klippa: Serie A: Sarri sýnir puttann

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.