Salernitana leiddi 0-2 í hálfleik þökk sé mörkum Antonios Candreva og Krzysztof Piatek. Gleison Bremer minnkaði muninn fyrir Juventus í upphafi seinni hálfleiks og í uppbótartíma fengu heimamenn vítaspyrnu.
Leonardo Bonucci, fyrirliði Juventus, tók spyrnuna en Luigi Sepe, markvörður Salernitana, varði. Bonucci fylgdi hins vegar á eftir og jafnaði í 2-2
Tveimur mínútum síðar skoraði Arkadiusz Milik fyrir Juventus með skalla eftir hornspyrnu. Hann reif sig úr treyjunni, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Mark Miliks var aftur á móti dæmt af eftir skoðun á myndbandi því Bonucci, sem reyndi að skalla boltann í netið, virtist vera rangstæður. Það var kolrangur dómur því Candrevam spilaði alla leikmenn Juventus réttstæða eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.
This image is wild. Juventus denied a last minute winner after this was clearly missed by VAR. #JuveSalernitana
— Adriano Del Monte (@adriandelmonte) September 11, 2022
Absolute shambles. pic.twitter.com/aFI3yLdG4I
Eftir þetta varð fjandinn laus. Matteo Marcenaro, dómari leiksins, rak Juan Cuadrado, leikmann Juventus, og Federico Fazio, leikmann Salernitana, af velli og knattspyrnustjóri Juventus, Max Allegri, fékk einnig rauða spjaldið.
Juventus er taplaust í ítölsku úrvalsdeildinni en er samt bara í 8. sæti með tíu stig eftir sex umferðir. Salernitana er í 10. sætinu með sjö stig. Liðið hefur aldrei unnið Juventus í efstu deild en var ekki langt frá því í gær.
Næsti leikur Juventus er gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.