Fótbolti

Alfreð og Sævar byrjuðu báðir í jafntefli við Álaborg

Atli Arason skrifar
Alfreð Finnbogason var í fyrsta skipti í byrjunarliði Lyngby í dag.
Alfreð Finnbogason var í fyrsta skipti í byrjunarliði Lyngby í dag. Lyngby

Alfreð Finnbogason og Sævar Atli Magnússon spiluðu í fyrsta skipti saman í framlínu Lyngby í 1-1 jafntefli gegn AaB Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni. Alfreð spilaði 60 mínútur en Sævar lék allan leikinn.

Lyngby komst yfir rétt fyrir leikhlé þegar að frábær fyrirgjöf Adam Sørensen frá vinstri rataði beint á Kasper Jørgensen sem tók boltann niður og kom honum framhjá Josip Posavec í marki Álaborgar.

Jöfnunarmark Álaborgar kom strax eftir hálfleik og var afar klaufalegt fyrir Lyngby. Mads Kikkenborg, markvörður Lyngby, reyndi þá erfiða sendingu sem fór beint á Allan Sousa, leikmann Álaborgar, sem þakkaði fyrir sig og setti boltann í netið og þar við sat.

Lyngby er því enn án sigurs og er í neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með þrjú stig eftir níu leiki. Álaborg er einu sæti fyrir ofan með níu stig.

Næsti leikur Lyngby er gegn Aroni Elís Þrándarsyni og félögum í OB næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×