Fótbolti

Rúnar Alex og Willum Þór með sína fyrstu deildar­sigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson nældi í sinn fyrsta sigur í Tyrklandi í kvöld.
Rúnar Alex Rúnarsson nældi í sinn fyrsta sigur í Tyrklandi í kvöld. Twitter/@totalfl

Rúnar Alex Rúnarsson stóð milli stanganna er Alanyaspor lagði Ankaragücü í tyrknesku úrvalsdeildinni. Var þetta fyrsti sigur liðsins síðan Rúnar Alex komst í byrjunarliðið. Willum Þór Willumsson kom inn af bekknum hjá Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta er liðið vann 3-2 útisigur á Volendam.

Rúnar Alex var að spila sinn fjórða leik í Tyrklandi í kvöld. Fyrir leik kvöldsins hafði lið hans ekki enn unnið leik. Sigurmarkið skoraði Efkan Bekiroğlu á 87. mínútu leiksins. Sigurinn þýðir að Alanyaspor er í 9. sæti tyrkensku úrvalsdeildarinnar með átta stig að loknum sex umferðum.

Willum Þór hóf leik kvöldsins á bekknum en var sendur á vettvang þegar 20 mínútur lifðu leiks en þá var staðan jöfn 1-1. Bas Kuipers skoraði tvívegis eftir að íslenski miðjumaðurinn mætti til leiks og mark í uppbótartíma frá heimaliðinu gat ekki komið í veg fyrir sigur Go Ahead Eagles.

Ernirnir eru enn í fallsæti en þetta var fyrsti sigur liðsins á tímabilinu. Willum Þór og félagar eru sem stendur með þrjú stig í 17. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.

Kristian Hlynsson spilaði allan leikinn í 1-1 jafntefli Jong Ajax og Oss. Lagði Kristian upp mark Jong Ajax í fyrri hálfleik. Kristian og félagar eru í 9. sæti hollensku B-deildarinnar með átta stig eftir sex leiki.

Nökkvi Þeyr Þórisson þreytti frumraun sína í 2-0 tapi Beerschot gegn Lommel í belgísku B-deildinni í kvöld. Nökkvi Þeyr kom inn af bekknum þegar 19 mínútur voru til leiksloka. Honum tókst ekki að hjálpa Beerschot að jafna metin og skoruðu gestirnir annað mark áður en leiknum lauk.

Lommel er í 2. sæti deildarinnar með níu stig á meðan Beerschot er í 3. sæti með sjö stig. Kolbeinn Þórðarson var ekki í leikmannahóp Lommel að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×