Erlent

Enn bætist á vandræði Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, stendur frammi fyrir margvíslegum rannsókn yfirvalda í Bandaríkjunum.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, stendur frammi fyrir margvíslegum rannsókn yfirvalda í Bandaríkjunum. AP/Mary Altaffer

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur kosningasjóð Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, til rannsóknar. Sérstaklega er verið að skoða hvernig peningum hefur verið safnað í „Save America“ sjóðinn og hvernig þeim hefur verið varið.

Sjóðurinn var stofnaðu í kjölfar þess að Trump tapaði kosningunum gegn Joe Biden árið 2020 og hafa fúlgur fjár safnast í hann á grunni lyga Trumps um að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur.

Sjá einnig: Trump safnar enn fúlgum fjár á grunni lyga

Stefnur hafa verið gefnar út vegna rannsóknarinnar en í frétt New York Times segir að þær gefi til kynna að saksóknarar vilji læra meira um innri starfsemi sjóðsins. Stefnur hafa borist þeim sem að sjóðnum koma en fólk sem vann fyrir Trump í Hvíta húsinu og í tengslum við forsetaframboð hans hefur einnig verið stefnt.

Þetta er til viðbótar við nokkrar aðrar rannsóknir sem snúa að viðleitni Trumps og bandamanna hans við að reyna að snúa niðurstöðum kosninganna. Sú viðleitni og lygar Trump-liða leiddu meðal annars til árásarinnar á þinghúsið 6. janúar í fyrra.

Dómsmálaráðuneytið er þar að auki með Trump til rannsóknar vegna opinberra og leynilegra gagna sem hann tók með sér þegar hann flutti úr Hvíta húsinu og til Flórída.

Sjá einnig: Fundu leynigögn um kjarnorkuvopn á heimili Trumps

Lögmenn ráðuneytisins sendu í gær kröfugerð til dómara sem úrskurðaði nýverið í málinu að utanaðkomandi aðili skyldi fenginn til að fara yfir gögnin og í millitíðinni mætti ráðuneytið ekki nota þau til frekari rannsókna.

Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd og hafa ýmis spjót beinst að dómaranum, Aileen Cannon, sem var skipuð í embætti á síðustu dögum forsetatíðar Trumps.

Trump og bandamenn hans í Repúblikanaflokknum kepptust við að skipa eins marga dómara í ævistörf eins og þeir gátu á kjörtímabili Trumps. Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings höfðu áður komið í veg fyrir að Barack Obama, fyrrverandi forseti, gæti skipað dómara.

Margir þessara dómara voru ungir og reynslulitlir íhaldsmenn. 

Sjá einnig: „Þetta mun hafa afleiðingar 40 ár fram í tímann“

Saksóknarar vilja að Cannon skipti um skoðun og leyfi rannsakendum að halda áfram að skoða gögnin. Nauðsynlegt sé að tryggja að búið sé að finna öll leynileg gögn.

Samkvæmt frétt Reuters vilja saksóknar að kröfugerð þeirra verði svarað fyrir 15. september, annars muni þeir áfrýja úrskurði hennar. Slík áfrýjun færi fyrir nefnd ellefu alríkisdómara en Trump skipaði sex af þeim í embætti.

Í áðurnefndri kröfugerð sem send var í gær kemur fram að starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) og Þjóðskjalasafns Bandaríkjanna hafi mögulega ekki fundið öll opinber og leynileg gögn í vörslu Trumps. Saksóknararnir sem sendu bréfið segja nauðsynlegt að rannsaka málið sem fyrst og tryggja að gögnin sem kunni að vera enn ófundin ógni ekki þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Deilurnar um skjölin urðu fyrst opinberar í febrúar eftir að starfsmenn sóttu skjöl til Mar-a-Lago, sveitarklúbbar Trumps í Flórída. Eftir það kom í ljós að Trump hafði ekki skilað öllum þeim opinberu gögnum sem hann hefði samkvæmt lögum átt að skila til Þjóðskjalasafnsins.

Fleiri gögn voru sótt í júní og þá staðhæfðu lögmenn Trumps að engin frekari opinber og/eða leynileg gögn væri að finna í Flórída. Það var ósatt og lék grunur á að gögn hefðu verið falin. Sá grunur virðist hafa reynst réttur en FBI framkvæmdi húsleit í Flórída í ágúst og fannst þá mikið magn opinberra og leynilegra gagna.


Tengdar fréttir

Bannon aftur ákærður fyrir svik vegna múrsins

Stephen Bannon, langtímabandamaður Donalds Trumps og fyrrverandi ráðgjafi hans í Hvíta húsinu, hefur verið ákærður fyrir svik og fjárþvætti. Saksóknarar í New York saka hann um að svindla á fólki í tengslum við fjáröflunina „We Build the Wall“ sem safna átti peningum til byggingar múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Segir MAGA-Rep­úbl­ik­an­a ógna Band­a­ríkj­un­um

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fór hörðum orðum um Donald Trump, forvera sinn og stuðningsmenn hans, í ræðu sem hann hélt í gærkvöldi. Biden sagði að svo lengi sem Trump stjórnaði Repúblikanaflokknum ógnaði flokkurinn lýðræði í Bandaríkjunum.

Lögmenn Trumps í vandræðum vegna ósanninda

Nýtt dómskjal sem opinberað var í tengslum við rannsókn Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna á vörslu Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, á opinberum og leynilegum gögnum í Flórída sýna að Evan Corcoran og Christina Bobb, tveir af lögmönnum Trumps, gætu staðið frammi fyrir ansi alvarlegum lagalegum vandræðum. Þau sýna einnig að Trump sjálfur gæti verið í hættu.

Er rauða flóðbylgjan að verða að smá skvettu?

Svo virðist sem að sú „rauða flóðbylgja“ sem spáð hefur verið að skelli á Bandaríkjunum í þingkosningunum í nóvember, ætli ekki að raungerast. Undanfarna mánuði hafa Repúblikanar virst í góðri stöðu til að ná völdum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og mögulega öldungadeildinni einnig.

Tangarhald Trumps á flokknum aldrei þéttara

Ef það er einn lærdómur sem draga má af úrslitum í forvali Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum á undanförnum dögum, er það að Donald Trump ræður þar ríkjum. Honum er að takast að bola öllum helstu andstæðingum úr flokknum. Frambjóðendur flokksins til áhrifamikilla embætta víðs vegar um Bandaríkin hafa tekið undir lygar Trumps um að kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum 2020.

Neitaði að svara spurningunum

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, neitaði að svara spurningum rannsakenda ríkissaksóknara New York við vitnaleiðslur í dag. Til þess nýtti hann rétt Bandaríkjamanna til þess að sakbenda sjálft sig ekki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×