Lina ræddi málefni íslenskukennslu í Íslandi í dag, þar sem hún sagði íslenska ríkið sýna mikið áhugaleysi í innflytjendamálum; og að ekki væri nándar nærri staðið nógu vel að íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Hér að ofan má sjá viðtalið, sem fer fram á lýtalausri íslensku - nokkuð sem allir geta lært að sögn Linu.
„Ég byrjaði á að fara í tungumálaskóla, keypti bækur, en því miður. Eftir fjögur eða fimm námskeið þá var ekkert til að gera. Það er hægt að læra íslensku en það vantar kennslubækur, orðabækur og námskeið," segir Lina.
Úrræðaleysið sem blasir við eftir fyrstu grunnnámskeiðin kemur að sögn Linu niður á íslensku samfélagi í praktískum skilningi. Hún sjálf hafi þannig þurft að minnka við sig í vinnu til að klára námið og þar að auki þekki hún fjölda menntaðs fólks sem ekki getur starfað við fag sitt vegna þess að það hefur ekki náð tökum á tungumálinu þrátt fyrir áralanga dvöl.
Það sé ekki fjarlægur veruleiki að hér skapist stór hópur fólks sem ekki tali tungumálið, heldur sé sú staða þegar uppi.

„Mér finnst íslenska ríkið mjög gott í að skrifa skýrslur en svo gerist ekki neitt,“ segir Lina. Ég þekki marga sem hafa verið hér í sjö, átta, níu ár og tala varla íslensku af því að tækifærin eru ekki til. Það er ótrúlega erfitt að finna námskeið. Það eru ekki til kennslubækur og kennslubækurnar sem þú átt að skoða til að fá ríkisborgararétt, þær eru bara ekki góðar.
Það þarf, að sögn Linu, að gera miklu, miklu betur.