Innlent

Fjölskylda missti heimili sitt í bruna í Reykjanesbæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eins og sjá má þá urðu gríðarlega miklar skemmdir á íbúðinni.
Eins og sjá má þá urðu gríðarlega miklar skemmdir á íbúðinni. Vísir/Lillý

Eldur kviknaði í þriggja hæða fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ um níuleytið í morgun. Íbúðin er stórskemmd en aðrar íbúðir í fjölbýlishúsinu sluppu án skemmda.

Eyþór Þórarinsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir líklegt að eldurinn hafi verið búinn að krauma í um klukkustund áður en slökkvilið var kallað til. Ekki lá fyrir hvort einhver væri innanhúss þegar slökkvilið mætti á svæðið svo reykkafarar voru sendir til að leita að fólki og slökkva eldinn. Aðgerðir á staðnum tóku um klukkustund.

Talið er líklegt að eldurinn hafi kviknað út frá helluborði sem gleymdist að slökkva á. Það kemur í hlut Lögreglunnar á Suðurnesjum að staðfesta þá tilgátu.

Um er að ræða stóra íbúð í þriggja hæða fjölbýlishúsi á Ásbrú. Íbúðin er gjörónýt og innbúið farið að sögn Eyþórs varðstjóra. Reykur barst inn í tvær aðrar íbúðir en stigagangurinn slapp annars við teljandi skemmdir. Þá sér ekki á húsinu að utan.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu bjuggu hjón með tvö lítil börn í íbúðinni.

Þá sinntu slökkviliðsmenn öðru verkefni á næsta leiti augnablikum eftir að slökkvistarfi lauk. Harður árekstur tveggja fólksbíla varð á hættulegum gatnamótum á Ásbrú. Eyþór segir einn hafa verið fluttan á slysadeild með minni háttar meiðsli. Ökumaður sem beið á stöðvunarskildu mun hafa blindast af sólinni og ekki séð bíl sem kom akandi þvert á götuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×