Erlent

Lokað á Novaya Gazeta í Rússlandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Dmitry Muratov, ritstjóri Novaya Gazeta.
Dmitry Muratov, ritstjóri Novaya Gazeta. Getty/Sefa Karacan

Dómstóll í Rússlandi hefur svipt Novaya Gazeta, einn af síðustu frjálsu fjölmiðlum Rússlands, starfsleyfinu. Blaðið verður því að hætta allri sinni starfsemi í Rússlandi. 

Fjölmiðlaeftirlitsstofnunin Rozkomnadzor sakaði blaðið um að hafa ekki skilað inn tilskildum gögnum um eigendaskipti, sem gerð voru árið 2006. Dmitry Muratov, ritstjóri blaðsins og Nóbelsverðlaunahafi, sagði fyrir utan dómsal eftir að dómur var kveðinn upp að málið væri af pólitískum toga og engin lagastoð væri fyrir banninu. Forsvarsmenn blaðsins muni áfrýja niðurstöðunni. 

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna sagði að uppkveðnum dómi að þetta væri enn eitt höggið á frjálsa fjölmiðla í landinu. Hún hvatti stjórnvöld í Moskvu til að standa vörð um fjölmiðlafrelsi. 

Novaya Gazeta hefur verið hornsteinn í rússneskri fjölmiðlun frá því að blaðið var stofnað árið 1993. Blaðið hefur haft ákveðna sérstöðu á rússneskum fjölmiðlamarkaði sem eitt helsta rannsóknarblað landsins og fyrir að hafa haldið úti starfsemi þrátt fyrir aðför rússneskra stjórnvalda að frjálsum fjölmiðlum.

Blaðið hætti tímabundið allri starfsemi sinni innan landamæra Rússlands eftir að hafa fengið áminningu fyrir að hafa brotið lög um umfjöllun um stríðið í Úkraínu. Stjórnvöld hafa sett fjölmiðlum og almenningi miklar skorður þegar kemur að umfjöllun og umræðu um stríðið, sem hvorki má kalla stríð né innrás í Rússlandi. 

Síðan í mars hafa blaðamenn Novaya Gazeta haldið úti fréttaflutningi á internetinu en lokað hefur verið fyrir síðuna í Rússlandi. Muratov sjálfur er enn búsettur í Rússlandi og tók til að mynda stóran þátt í útför Mikhails Gorbachev, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, sem var góður vinur hans og stuðningsmaður. Það var Gorgbachev sjálfur sem fjármagnaði stofnun Novaya Gazeta á sínum tíma með peningum sem hann fékk þegar hann hlaut friðarverðlaun Nóbels. 


Tengdar fréttir

Putin heldur áfram að ofsækja fjölmiðla

Rússnesk stjórnvöld halda áfram að ofsækja fréttamenn og fjölmiðla sem voga sér að lýsa andstöðu við innrás Rússa í Úkraínu og kalla hana stríð en ekki sérstaka hernaðaraðgerð. Fjölmiðlaráð Rússlands hefur krafist þess að Hæstiréttur landsins afturkalli starfsleyfi vefútgáfu eina frjálsa dagblaðsins í landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.