Innlent

Allt í rusli í Reykjadal

Árni Sæberg skrifar
Svo virðist sem gott partí hafi verið haldið í Reykjadal nýlega.
Svo virðist sem gott partí hafi verið haldið í Reykjadal nýlega. Aðsend

Blóðugur pappír, óhreinar nærbuxur og risastór poki fullur af dósum voru á meðal þess rusls sem finna mátti á víð og dreif í Reykjadal í dag.

Áhugamanni um útivist blöskraði svo ástandið í Reykjadal í dag að hann ákvað að mynda hluta þess rusls sem hann sá þar. Sá hefur reglulega komið í Reykjadal í mörg ár en man ekki eftir því að umgengni hafi nokkurn tímann verið svo slæm sem hún er nú.

Reykjadalur hefur um árabil verið geysivinsæll ferðamannastaður enda eru þar heitar laugar sem hver sem er getur baðað sig í án endurgjalds. Ekki skemmir fyrir að dalurinn er steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist sem gestum Reykjadals hafi farið aftur í umgengni undanfarið.

Það er hollt og gott að stinga sér til sunds í laugunum í Reykjadal.Aðsend

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar ákvað nýverið að hefja gjaldtöku á bílastæðum á Árhólmum við gönguleiðina að Reykjadal. Þeir fjármunir sem aflað er með gjaldtökunni eru eyrnamerktir uppbyggingu á svæðinu. Svo virðist sem þeim hafi ekki verið varið í þrif eða uppsetningu ruslatunna.

Það verður seint talið geðslegt að baða sig í laug ásamt þessum pappír.Aðsend

Þá var kaffihús nýlega opnað í Reykjadal en þar innandyra virðist umgengni ekki vera mikið skárri. Yfirfullar ruslatunnur blasa við þeim sem nýta sér salernisaðstöðu kaffihússins.

Fari menn úr nærbuxunum fyrir sundsprett, sem allir ættu að gera, þá er betra að taka þær með sér heim.Vísir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.