Umfjöllun: Ísland - Hvíta-Rússland 6-0 | Komnar skrefi nær HM eftir stórsigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vorsabæjarfrænkurnar Sveindís Jane Jónsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir fagna marki þeirra síðarnefndu.
Vorsabæjarfrænkurnar Sveindís Jane Jónsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir fagna marki þeirra síðarnefndu. vísir/hulda margrét

Ísland steig stórt skref í átt að því að komast á HM kvenna í fótbolta í fyrsta sinn með 6-0 stórsigri á Hvíta-Rússlandi í kvöld.

Með sigrinum komst íslenska liðið á topp C-riðils undankeppninnar og úrslit kvöldsins þýða að því dugir jafntefli gegn Hollandi í úrslitaleiknum um sæti á HM í Utrecht á þriðjudaginn. Tapi Íslendingar í Hollandi þurfa þeir að fara í umspil um að komast á HM.

Ísland var 2-0 yfir í hálfleik þökk sé tveimur mörkum Söru Bjarkar Gunnarsdóttur. Dagný Brynjarsdóttir jók muninn í 3-0 í upphafi seinni hálfleiks og undir lokin bættu Glódís Perla Viggósdóttir, Dagný og Selma Sól Magnúsdóttir við mörkum.

Sara Björk Gunnarsdóttir stekkur hæð sína í loft upp.vísir/hulda margrét

Ísland er með átján stig á toppi C-riðils en eftir tap fyrir Hollandi í fyrsta leik sínum í undankeppninni hefur íslenska liðið unnið sex leiki í röð með markatölunni 27-0.

Íslendingar áttu að vinna leikinn í kvöld og gerðu það með stæl. Andstæðingurinn var vissulega veikburða en íslenska liðið mætti ákveðið til leiks, sýndi enga miskunn og spilaði stórvel nánast allan tímann.

Frammistaðan gefur góð fyrirheit fyrir leikinn stóra á þriðjudaginn. Þar reynir hins vegar meira og allt öðruvísi á Íslendinga enda Hollendingar með eitt besta lið heims. En möguleikinn er svo sannarlega til staðar.

Sveindísi héldu engin bönd í kvöld.vísir/hulda margrét

Íslenska liðið var miklu sterkara í kvöld og gaf tóninn í byrjun leiks. Strax á upphafsmínútunni lék Sveindís Jane Jónsdóttir á Yuliu Slesarchik og komst í hættulega stöðu en fyrirgjöf hennar rataði ekki á samherja. Þetta var í fyrsta en alls ekki síðasta skipti sem Sveindís fór illa með Slesarchik sem var ekki í öfundsverðri stöðu í kvöld.

Á hinum kantinum, þeim vinstri, var Amanda Andradóttir sömuleiðis stórhættuleg og nýtti tækifærið í byrjunarliðinu vel. Þær Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, yngstu leikmenn íslenska liðsins, náðu sérstaklega vel saman og sköpuðu ítrekað hættu.

Á 11. mínútu vann Dagný boltann á miðjunni og kom honum á Amanda sem fór inn á vítateiginn og átti skot í höndina á Viktoriu Kazakevich. Þýski dómarinn Karoline Wacker benti á vítapunktinn. Sara steig fram og skoraði af öryggi.

Pottþétt á punktinum.vísir/hulda margrét

Eftir stundarfjórðung bætti Sara öðru marki við. Sveindís lék þá á Slesarchik og sendi boltann fyrir á fjærstöng þar sem Sara gnæfði yfir Anastasiu Popovu og skallaði boltann í fjærhornið.

Íslenska liðið hélt áfram að ógna, aðallega með kantspili og með löngum innköstum Sveindísar. Eftir eitt slíkt skoraði Amanda en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Sóknarþunginn dvínaði aðeins eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið þótt yfirburðirnir væru áfram miklir. Hvít-Rússar minntu reyndar á mig á 39. mínútu þegar Karyna Alkhovik skaut rétt framhjá íslenska markinu eftir laglegt spil gestanna. Þetta reyndist eina hættan sem Hvít-Rússar sköpuðu í leiknum.

Amanda Andradóttir átti afar góðan leik á vinstri kantinum.vísir/hulda margrét

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af álíka krafti og þann fyrri. Og strax á annarri mínútu seinni hálfleiks skoraði Dagný eftir langt innkast Sveindísar og skalla Söru. Hvít-Rússar fengu engan tíma til að ná áttum og strax eftir markið komst Amanda í dauðafæri en Maria Svidunovich varði frá henni.

Eftir þetta hægðist aðeins á íslenska liðinu sem hefði getað nýtt sér ítrekaðan klaufagang Hvít-Rússa í sínu uppspili betur.

Þorsteinn Halldórsson gerði þrefalda skiptingu á 62. mínútu. Skömmu síðar átti einn varamannanna, Elín Metta Jensen, fyrirgjöf á Sveindísi sem var hársbreidd frá því að skora.

Glódís Perla Viggósdóttir fagnar sínu sjöunda landsliðsmarki.vísir/hulda margrét

Fjórða markið kom svo á 71. mínútu þegar Glódís skallaði hornspyrnu Amöndu í netið. Íslendingar fengu aukinn kraft við þetta og bættu tveimur mörkum við, með aðeins mínútu millibili, áður en yfir lauk.

Á 81. mínútu skoraði Dagný annað mark sitt og fimmta mark Íslands með skoti af stuttu færi eftir frábæran sprett Sveindísar. Þetta var 37. landsliðsmark Dagnýjar sem jafnaði þar með sveitunga sinn, Hólmfríði Magnúsdóttur, í 2. sæti listans yfir markahæstu landsliðskonur Íslands frá upphafi.

Selma Sól Magnúsdóttir átti afar kröftuga innkomu.vísir/hulda margrét

Mínútu síðar nýttu Íslendingar sér bras Hvít-Rússa og skoruðu sjötta markið. Alexandra Jóhannsdóttir lagði þá boltann á Selmu sem átti skot sem fór af varnarmanni og inn.

Sveindís hélt áfram að ógna og lagði upp tvö færi fyrir Selmu og Svövu Rós Guðmundsdóttur en mörkin urðu ekki fleiri. Lokatölur 6-0, Íslandi í vil. Íslenska liðið stóðst þetta próf með glæsibrag en það stærsta er framundan á þriðjudaginn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira