Fótbolti

„Ekki verið minnst á orðið Holland í okkar hópi“

Sindri Sverrisson skrifar
Þorsteinn Halldórsson vill ekkert vera að hugsa um yfirvofandi úrslitaleik við Holland strax.
Þorsteinn Halldórsson vill ekkert vera að hugsa um yfirvofandi úrslitaleik við Holland strax. Getty/Charlotte Tattersall

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í fótbolta, sá ekki ástæðu til þess að kvarta yfir því að fyrir úrslitaleik Hollands og Íslands um sæti á HM á þriðjudag þyrfti aðeins Ísland að spila annan mikilvægan mótsleik í dag, gegn Hvíta-Rússlandi.

Holland á aðeins eftir heimaleikinn við Ísland á þriðjudag en Ísland á tvo leiki eftir, gegn Hvíta-Rússlandi í Laugardalnum í dag og svo leikinn í Utrecht.

Ef að Ísland vinnur Hvíta-Rússland dugar liðinu jafntefli gegn Hollandi á þriðjudag, og því er afar mikilvægt að stelpurnar okkar fari með sigur af hólmi í dag. Sigur í dag gæti jafnframt reynst liðinu mikilvægur tapi það gegn Hollandi, varðandi umspilið sem Ísland færi þá í.

Hollendingar leika vináttulandsleik við Skotland í dag og geta nýtt þann leik að vild til þess að hafa sína leikmenn í sem bestu ástandi á þriðjudaginn. Ísland þarf hins vegar nauðsynlega sigur í dag. Þorsteinn lætur þá staðreynd ekki angra sig að leikjaniðurröðun UEFA valdi þessum mismun á milli tveggja bestu liða riðilsins.

„Við erum bara í fimm liða riðli svo það er alltaf eitthvað lið sem situr hjá,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í gær.

Hann þvertók fyrir það að geta leyft sér að stilla upp liði í dag út frá því hvernig hann hygðist stilla upp gegn Hollandi eftir fjóra daga.

„Við erum bara að hugsa um leikinn [í dag]. Ég er ekkert að hugsa um uppstillinguna núna með tilliti til Hollandsleiksins. Þessi leikur [við Hvít-Rússa] er leikur sem við verðum að vinna og spila vel í. Ég er ekkert að spá í Holland. Það er bara Hvíta-Rússland og ekkert annað. Það hefur ekki verið minnst á orðið Holland í okkar hópi,“ sagði Þorsteinn.

Klippa: Þorsteinn hugsar ekkert um Holland

Ísland mætir Hvíta-Rússlandi á Laugardalsvelli í dag klukkan 17:30 (miðasala á tix.is) og spilar svo gegn Hollandi ytra næsta þriðjudagskvöld, í síðustu leikjum sínum í undankeppni HM 2023.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×