Enski boltinn

Segja að Liverpool og Dortmund hafi komist að samkomulagi um Bellingham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jude Bellingham gæti gengið til liðs við Liverpool í janúar á næsta ári.
Jude Bellingham gæti gengið til liðs við Liverpool í janúar á næsta ári. Ulrik Pedersen/DeFodi Images via Getty Images

Liverpool hefur komist að munnlegu samkomulagi við Borussia Dortmund um kaupin á enska ungstirninu Jude Bellingham ef marka má heimildarmenn Football Insider.

Þýska félagið hefur gefið það út að hinn 19 ára Bellingham sé ekki á förum frá félaginu í sumar, en samkvæmt heimildarmönnum Football Insider gæti leikmaðurinn gengið til liðs við Liverpool í janúarglugganum á næsta ári.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, greindi frá því á dögunum að félagið væri í leit að miðjumanni nú áður en glugginn lokar á fimmtudaginn. Áður hafði hann sagt að ekki væri í kortunum að styrkja liðið frekar, en slæm byrjun á tímabilinu virðist hafa fengið hann til að skipta um skoðun.

Bellingham er eins og áður segir aðeins 19 ára gamall, en hafur þó lengi verið á milli tannana á sparkspekingum. Hann hóf atvinnumannaferil sinn hjá Birmingham þegar hann varð yngsti leikmaður félagsins frá upphafi aðeins 16 ára og 38 daga gamall. Hann gekk svo til liðs við Dortmund árið 2020 og hefur leikið 65 deildarleiki fyrir félagið, ásamt því að eiga að baki 15 leiki fyrir enska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×