Erlent

Rússar komu í veg fyrir endur­nýjun samnings SÞ um kjarn­orku­vopn

Eiður Þór Árnason skrifar
Ráðstefnan hefur staðið yfir í um heilan mánuð.
Ráðstefnan hefur staðið yfir í um heilan mánuð. EPA/JUSTIN LANE

Andstaða Rússlands kom í gær í veg fyrir samþykkt sameiginlegrar yfirlýsingar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um takmörkun kjarnorkuvopna.

Alls hefur 191 ríki átt aðild að samningi SÞ um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna en samkomulagið hefur jafnan verið endurskoðað á fimm ára fresti. Markmið þess er meðal annars að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu vopnanna en fulltrúar allra ríkjanna þurftu að samþykkja yfirlýsinguna. 

Fulltrúar Rússlands lögðust gegn hluta textans þar sem lýst er yfir alvarlegum áhyggjum af hernaðarumsvifum í kringum kjarnorkuver í Úkraínu, einkum við kjarnorkuverið í Zaporizhzhia, sem rússneskar hersveitir náðu á sitt vald snemma í innrás sinni í Úkraínu.

Í drögunum er einnig komið inn á að stjórnvöld í Úkraínu hafi misst stjórn á slíkum innviðum í kjölfar hernaðarumsvifa sem hafi mjög neikvæð áhrif á öryggi fólks. Igor Vishnevetsky, fulltrúi Rússa sagði textann pólitískan og kallaði eftir auknu „jafnvægi.“ 

Sátt náðist ekki heldur árið 2015

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir Penny Wong, utanríkisráðherra Ástralíu að niðurstaðan valdi henni miklum vonbrigðum.

„Rússland kom í veg fyrir framfarir með því að neita að gera málamiðlun og samþykkja texta sem hafði verið samþykktur af öllum öðrum ríkjum.“

Aðildarríkjunum mistókst sömuleiðis að komast að samkomulagi þegar samningurinn var síðast endurskoðaður árið 2015. Nýafstaðin ráðstefna átti upphaflega að fara fram árið 2020 en var frestað vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Bonnie Jenkins, fulltrúi Bandaríkjanna á ráðstefnu SÞ, segir Bandaríkin harma þessa niðurstöðu og „enn fremur þær aðgerðir Rússa sem leiddu okkur á þennan stað í dag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×