Fótbolti

Á undan Íslandi í keppni með stóru strákunum þó að engin deild sé í landinu

Sindri Sverrisson skrifar
Dario Ulrich fagnar marki sínu gegn Rapid Vín sem reyndist duga til að koma Vaduz í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Dario Ulrich fagnar marki sínu gegn Rapid Vín sem reyndist duga til að koma Vaduz í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. EPA/GIAN EHRENZELLER

Tvær þjóðir, Liechtenstein og Kósovó, eignuðust í gær fulltrúa í riðlakeppni einnar af Evrópukeppnunum þremur í fótbolta karla í fyrsta sinn. Samt er engin deildakeppni fyrir lið í Liechtenstein.

Þjóðirnar tvær voru því á undan Íslendingum að fá sæti í Evrópukeppni félagsliða karla en fulltrúar þeirra eru Vaduz frá Liechtenstein og Ballkani frá Kósovó.

Það sem gerir árangur Vaduz sérstaklega áhugaverðan er ekki bara það að íbúafjöldinn í Liechtenstein er svipaður og í Kópavogi. Liðið spilar nefnilega í B-deild.

Já, þar sem að ekki er deildakeppni í Liechtenstein þá spilar Vaduz í Sviss og er þar í 9. sæti næstefstu deildar. Samt tókst liðinu að slá út þrjá andstæðinga í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu og komast í riðlakeppnina.

Vaduz er hálfpartinn í áskrift að sæti í undankeppnum Evrópukeppna því liðið kemst þangað með því að verða bikarmeistari í Liechtenstein, samhliða því að spila í svissnesku deildakeppninni eins og hin liðin sem leika í bikarkeppninni í Liechtenstein.

Liðið lagði engin smálið að velli í sumar. Það byrjaði á að slá út Koper frá Slóveníu og svo Konyaspor frá Tyrklandi, og fullkomnaði svo árangur sinn með því að vinna granna sína frá Austurríki, Rapid Vín, samtals 2-1, eftir 1-0 útisigur í Austurríki í gær.

Vaduz og Ballkani verða því með í dag þegar dregið verður í riðla Sambandsdeildar Evrópu og gætu mætt liðum á borð við West Ham, Villarreal og Fiorentina, svo einhver séu nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×