Fótbolti

Fylkir hafði betur í toppslagnum og Grótta heldur í vonina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fylkismenn nálgast endurkomu í Bestu-deild karla.
Fylkismenn nálgast endurkomu í Bestu-deild karla. Vísir/Hulda Margrét

Seinni þremur leikjum kvöldsins í Lengjudeild karla lauk nú rétt í þessu. Fylkismenn eru svo gott sem búnir að tryggja sér sæti í Bestu-deildinni eftir 0-2 sigur gegn HK, Grótta heldur enn í vonina eftir nauman 1-0 sigur gegn Þór og Afturelding vann öruggan 4-0 sigur gegn Þrótti Vogum.

Það var mikið undir í leik HK og Fylkis í kvöld, enda toppliðin tvö í Lengjudeildinni að mætast. Fyrir leikinn voru Fylkismenn með tveggja stiga forskot á toppnum og gátu því komið sér í vænlega stöðu fyrir seinustu fjórar umferðirnar.

Það er nákvæmlega það sem þeir gerðu því Mathias Laursen tryggði liðinu 0-2 sigur með tveimur mörkum á seinustu tuttugu mínútum leiksins.

Fylkir er nú með 42 stig á toppi deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir, fimm stigum meira en HK sem situr í öðru sæti.

Þá vann Grótta nauman 1-0 sigur gegn Þór þar sem Ásgeir Marinó Baldvinsson varð fyrir því óláni að skora eina mark leiksins í sitt eigið net.

Kjartan Kári Halldórsson fékk að líta rautt spjald í liði Gróttu þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka, en manni færri náðu Gróttumenn að sigla sigrinum heim.

Grótta situr því í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig, sex stigum á eftir HK sem situr í öðru sætinu, en efstu tvö liðin vinna sér inn sæti í deild þeirra bestu.

Að lokum vann Afturelding sannfærandi 4-0 sigur gegn Þrótti Vogum þar sem Javier Ontiveros Robles skoraði þrennu og Guðfinnur Þór Leósson skoraði eitt.

Upplýsingar um markaskorara og atvik fengust á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×