Fótbolti

KSÍ auglýsir loks eftir manni í stað Arnars

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson hefur gegnt tveimur stórum störfum fyrir KSÍ síðustu misseri.
Arnar Þór Viðarsson hefur gegnt tveimur stórum störfum fyrir KSÍ síðustu misseri. vísir/vilhelm

Nú þegar tuttugu mánuðir hafa liðið þar sem Arnar Þór Viðarsson hefur verið bæði þjálfari A-landsliðs karla í fótbolta og sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ hefur síðarnefnda starfið verið auglýst laust til umsóknar.

Knattspyrnusamband Íslands auglýsti starf sviðsstjóra laust til umsóknar í dag. Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, sagði við Vísi fyrr í sumar að hún teldi eðlilegt að finna nýjan mann í starf sviðsstjóra knattspyrnusviðs enda væri það 100% starf að vera landsliðsþjálfari. Aðspurð hvers vegna málið hefði dregist svona lengi svaraði hún:

„Við viljum vanda okkur og undirbúa þetta vel. Svo er þetta líka fjárhagsleg spurning en fyrst og fremst snýst þetta um að við viljum vanda okkur því þetta er mjög mikilvægt starf.“

Síðustu mánuði hefur Arnar þó fengið mikla aðstoð annarra landsliðsþjálfara við að sinna starfi sviðsstjóra knattspyrnusviðs en hann sagði stöðuna síðustu misseri engu að síður ekki hafa verið ákjósanlega.

Auglýsingin eftir sviðsstjóra er nánast eins og afrit af auglýsingunni frá því í október 2018, áður en fyrst var ráðið í starfið. Arnar var þá ráðinn af þáverandi formanni KSÍ, Guðna Bergssyni, sem hafði það sem stefnumál áður en hann var kjörinn í embætti að starf sviðsstjóra, eða yfirmanns knattspyrnumála, yrði mótað.

Þó bætist núna „aðkoma að þjálfun landsliða“ við sem eitt af verkefnum sviðsstjóra samkvæmt auglýsingu.

Auglýsingin er sem hér segir:

Helstu verkefni og ábyrgð

Sviðsstjóri knattspyrnusviðs vinnur að því að efla faglega þekkingu og framþróun á knattspyrnusviði sambandsins þannig að sviðið standist alþjóðlegan samanburð. Sviðsstjóri hefur auk þess umsjón með markmiðasetningu því tengdu og vinnur að þróun afreksstefnu sambandsins.

  • Yfirumsjón með samskiptum við aðildarfélög sambandsins og yfirþjálfara þeirra þegar kemur að eflingu og stuðningi við þeirra faglega starf.
  • Sviðsstjóri er ábyrgur fyrir samræmingu og framþróun á vinnubrögðum við þjálfun landsliða og ber að sjá til þess að sú þekking sem er innan KSÍ nýtist íslenskri knattspyrnu sem best.
  • Starfar með landsliðsnefndum KSÍ og öðrum fastanefndum eftir atvikum.
  • Aðkoma að áætlanagerð og skipulagningu við rekstur knattspyrnusviðs og starfsmannahaldi þess í samráði við framkvæmdastjóra.
  • Aðkoma að þjálfun landsliða.

Menntunar og hæfiskröfur

  • UEFA PRO gráða og víðtæk reynsla af þjálfun á öllum stigum er skilyrði
  • Þekking á íslenskri knattspyrnu
  • Leiðtogahæfileikar, reynsla af stjórnun og hæfni í mannlegum samskiptum
  • Góð tölvukunnátta er nauðsynleg sem og þekking á helsta hugbúnaði sem notaður er í tengslum við knattspyrnu
  • Góð tungumálakunnátta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×