Fótbolti

Úkraínska fótboltadeildin snýr aftur í miðju stríði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Shakhtar Donetsk stilla sér upp fyrir æfingarleik á móti ítalska félaginu AS Roma á Ítalíu á dögunum.
Leikmenn Shakhtar Donetsk stilla sér upp fyrir æfingarleik á móti ítalska félaginu AS Roma á Ítalíu á dögunum. Getty/Luciano Rossi

Allar keppnisíþróttir stöðvuðust í Úkraínu þegar Rússar réðust inn í landið í febrúar og þar á meðal fótboltadeildin. Úkraínustríðið stendur enn en Úkraínumenn ætla engu að síður að hefja nýtt fótboltatímabil í dag.

Deildarkeppnin fer af stað með leik á sjálfum Ólympíuleikvanginum í Kiev en þar mætast ekki lið frá höfuðborginni heldur verður þarna á ferðinni táknrænn leikur á milli liða út Austurhluta landsins sem hefur orðið hvað verst út úr stríðinu.

Liðin sem mætast eru Shakhtar Donetsk og Metalist 1925 Kharkiv, félög sem eru bókstaflega að berjast fyrir lífi sínu í miðju stríði á þeirra heimavígstöðvum. Þau munu spila fyrsta leikinn eftir 255 daga hlé.

Ólympíuleikvangurinn hefur hýst marga stórleiki í gegnum tíðina og tekur 65 þúsund manns í sæti. Engir áhorfendur verða hins vegar leyfðir á þessum leik.

Leikurinn hefst klukkan eitt eftir hádegi og leikmönnum verður hraðað í neðanjarðarbyrgi ef loftvarnaflauturnar fara að óma.

„Við erum með reglur í gildi ef loftvarnaflauturnar fara í gang og við þurfum að fara í byrgin. Ég held samt að leikmenn séu stoltir af því að taka þátt í þessum leik,“ sagði Taras Stepanenko, fyrirliði Shakhtar.

Þetta er merkisdagur fyrir Úkraínu því þetta er fánadagur landsins og á morgun halda þeir upp á þegar þeir fengu sjálfstæði frá Sovétríkjunum (Rússum) árið 1991.

„Ég talaði við forseta okkar, Volodymyr Zelenskyy, um hversu mikilvægur fótboltinn getur verið til að dreifa huganum. Við töluðum saman um hvort að það væri mögulegt að fótboltinn gæti hjálpað okkur til að hugsa um framtíðina,“ sagði Andriy Pavelko, forseti úkraínska knattspyrnusambandsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.