Fótbolti

Ófarirnar halda áfram eftir að hann yfirgaf Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Georginio Wijnaldum þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Roma.
Georginio Wijnaldum þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Roma. Getty/Fabio Rossi

Georginio Wijnaldum spilar ekki með Roma á næstunni og heimsmeistaramótið í Katar gæti verið í hættu hjá kappanum.

Lífið hefur ekki verið dans á rósum hjá miðjumanninum síðan að hann yfirgaf Liverpool á frjálsri sölu sumarið 2021.

Wijnaldum var stórstjarna hjá Liverpool og lykilmaður í bæði liðinu sem vann Meistaradeildin 2019 og ensku úrvalsdeildina 2020.

Liverpool vildi halda honum en hann ákvað frekar að semja við franska félagið Paris Saint Germain.

PSG hafði hins vegar lítil not fyrir kappann sem náði ekki að vinna sér sæti í byrjunarliðinu og spilaði miklu minna á sínu fyrsta tímabili en hann bjóst eflaust við.

Það leit ekki út fyrir að það myndi breytast í vetur og Wijnaldum var því lánaður til ítalska félagsins Roma þar sem hann myndi spila undir stjórn Jose Mourinho. Þar átti kappinn að geta fengið að spila og koma sér í gott leikform fyrir komandi heimsmeistaramót í Katar.

Tveimur vikum eftir að hann gerðist leikmaður Roma liðsins þá fótbrotnaði Wijnaldum á æfingu liðsins.

Eftir myndatöku kom í ljós brot í hægri sköflungi hans. Hann mun gangast undir frekari rannsóknir til að vita meira um næstu skref en hann spilar alla vega ekki fótbolta næstu vikurnar.

Svo gæti jafnvel farið að heimsmeistaramótið sé í hættu en það hefst í nóvember í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×