Fótbolti

Stóð í tæpar tíu sekúndur eins og stytta áður en hann tók vítið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Esmiraldo Sá Silva hreyfði hvorki legg né lið í heillangan tíma áður en hann tók vítið.
Esmiraldo Sá Silva hreyfði hvorki legg né lið í heillangan tíma áður en hann tók vítið. Twitter/@ligaportugal

Esmiraldo Sá Silva, leikmaður Feirense í portúgöslku B-deildinni, tók afar áhugaverða vítaspyrnu þegar hann jafnaði metin fyrir liðið í 1-1 jafntefli gegn Leixoes í kvöld. Hann stóð þá heillengi eins og stytta yfir boltanum áður en hann lét vaða.

Esmiraldo Sá Silva er nafn sem líklega fáir knattspyrnuáhugamenn á Íslandi þekkja til. Hann hefur þó vakið athygli víða fyrir áhugavert aðhlaup sitt, ef aðhlaup má kalla, þegar hann tekur vítaspyrnur.

Heimamenn í Feirense lentu undir um miðjan fyrri hálfleik og staðan var 0-1 í hálfleik. Gestirnir þurftu svo að leika manni færri stóran hluta af síðari hálfleiknum eftir að markaskorari Leixoes hafði látið reka sig af velli með sitt annað gula spjald.

Heimamenn fengu svo umrædda vítaspyrnu á 65. mínútu og þá mætti Sá Silva á punktinn. Hann stillti sér upp við boltann og í stað þess að taka nokkur skref til baka eins og flestar vítaskyttur stóð hann grafkyrr.

Dómari leiksins gaf svo merki um að hann mætti taka spyrnuna og þá lyfti Sá Silva skotfætinum. Hann lét þó ekki vaða strax, heldur stóð eins og stytta í tæpar tíu sekúndur áður en hann skoraði svo úr spyrnunni. Þessa áhugaverðu tækni má sjá hér fyrir neðan.

Þess má þó geta að Sá Silva fékk tækifæri til að tryggja liði sínu sigurinn af vítapunktinum á sjöttu mínútu uppbótartíma, en lét Quentin Beunardeau, markvörð Leixoes, þá verja frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×