Innlent

Móðir Hrafn­hildar Lilju fékk sím­talið sem hún hafði beðið eftir í fjór­tán ár

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Systurnar Sigurlaug Hrafnsdóttir og Líney Hrafnsdóttir. Líney er móðir Hrafnhildar Lilju Georgsdóttur sem myrt var í Dóminíkanska lýðveldinu árið 2008.
Systurnar Sigurlaug Hrafnsdóttir og Líney Hrafnsdóttir. Líney er móðir Hrafnhildar Lilju Georgsdóttur sem myrt var í Dóminíkanska lýðveldinu árið 2008. arnar halldórsson

Móðir Hrafnhildar Lilju, sem myrt var á ferðalagi í Dóminíska lýðveldinu fyrir fjórtán árum, segir að yfirlögregluþjónn hafi hringt símtalið sem hún hafi beðið eftir í fjórtán ár. Hún kveðst þakklát fyrir að lögregla hafi hlustað og segir stuðninginn ómetanlegan.

Fyrir helgi birtum við viðtal við móður og móðursystur Hrafnhildar Lilju sem myrt var á hrottafenginn hátt á ferðalagi í Dóminíska lýðveldinu fyrir fjórtán árum. Í viðtalinu gagnrýndu þær íslensk stjórnvöld fyrir að hafa aldrei beitt sér fyrir rannsókn málsins og sögðust vilja að málið yrði opnað á ný og rannsókn tekin upp en morðinginn gengur enn laus.

Eftir að viðtalið var birt hringdi Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra í móður Hrafnhildar Lilju og sagðist vilja skoða málið nánar og óska eftir upplýsingum frá lögreglunni úti. Líney segir að Karl Steinar hafi hringt símtalið sem hún hafi beðið eftir í fjórtán ár.

„Já þetta er sko langþráð símtal. Bara yndislegt og nú er maður búinn að fá hreyfingu á málið,“ sagði Líney Hrafnsdóttir, móðir Hrafnhildar.

„Hann hringir bara eftir viðtalið og lætur mig vita að þeir hafi áhuga á að skoða og fara yfir málið og að þetta væru ekki þeirra vinnubrögð.“

Sérstaklega séu þær þakklátar lögreglu fyrir að hafa hlustað. Þær finna fyrir miklum stuðningi úr öllum áttum.

„Bara ótrúleg. Við erum búin að fá svo svakalegan stuðning og þetta hefur gefið okkur svo mikið. Hún er alla vegana ekki gleymd.“

Þær segjast hafa fengið svakaleg viðbrögð í kjölfar viðtalsins og hreyfingu á málið sem gefi þeim mjög mikið.

„Bærinn, allur bærinn stendur við bakið á okkur. Segja hvað við séum miklar hetjur að stíga fram og þakka okkur fyrir að fara í þetta viðtal,“ sagði Sigurlaug Hrafnsdóttir, móðursystir Hrafnhildar.

„Við erum bara svo þakklátar fyrir þessum viðbrögðum og lögreglu og öllum sem hafa tekið þátt, við erum þakklát,“ sagði Líney.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.