Erlent

Sómalski herinn batt enda á umsátur um hótel í Mogadishu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hópur hermanna á vakt í miðbæ Mogadishu í Sómalíu.
Hópur hermanna á vakt í miðbæ Mogadishu í Sómalíu. AP/Farah Abdi Warsameh

Yfirvöld í Sómalíu bundu í gærkvöldi enda á blóðuga árás á hótel í höfuðborginni Mogadishu. Talið er að um tuttugu manns hafi verið drepnir þegar árásarmenn réðust inn í Hayat hótel og héldu gestum þess í gíslingu í meira en þrjátíu klukkustundir.

Hópur árásarmanna réðust inn á Hayat-hótelið í Mogadishu í fyrrakvöld vopnaðir byssum og sprengdu sprengjur. Í kjölfarið sendu þeir frá sér tilkynningu þar sem þeir hótuðu að drepa alla gestina. Öryggissveitir sómalska hersins brugðust við árásinni og létu sprengjum rigna á hótelið á meðan árásarmennirnir byrgðu sig inni í hótelinu.

Rúmum þrjátíu klukkustundum náði herinn að yfirbuga árásarmennina. Ismael Abdi, hótelstjóri Hayat hótels, sagði við AP að þó umsátri árásarmannanna væri lokið væru öryggissveitir enn að vinna að því að tæma svæðið. En hótelið er illa farið eftir að öryggissveitir hersins létu sprengjum rigna yfir það í umsátrinu.

Þekkt hryðjuverkasamtök hafa lýst yfir ábyrgð

Lögreglan hefur ekki enn gefið nákvæma útskýringu á því hvernig árásin átti sér stað og hvernig henni vatt fram. Þá er ekki heldur ljóst hvernig árásarmennirnir komust inn í hótelið.

Hryðjuverkasamtökin al-Shabab, sem tengjast al-Qaida böndum, hafa hins vegar lýst því yfir að þau beri ábyrgð á árásinni sem er sú nýjasta í röð árása á staði sem embættismenn stjórnvalda hafa heimsótt.

Árásin á hótelið er jafnframt fyrsta hryðjuverkaárásin í Mogadishu frá því Hassan Sheikh Mohamud, forseti Sómalíu, tók við stjórn landsins í maí eftir stjórnarkreppu.

Eins og sjá má hér er Hayat hótel ansi illa farið eftir árásina.Getty/Abukar Mohamed Muhudin


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×