Sótti innblástur í Bridgerton þættina
Lögin af plötunni segja þau innblásin af ástinni í öllum sínum formum. Meðal annars hefur Markéta sótt innblástur í sjónvarpsþættina Bridgerton sem snúast um leitina að ástinni og heitir það lag The season sem áhorfendur þáttanna tengja eflaust strax við.
Myndbandið fyrir lagið var tekið upp í kastala og görðum erkibiskups í Tékklandi sem er friðlýstur af UNESCO.
Yngsti handhafi Óskarsverðlaunanna fyrir besta frumsamda lagið
Markéta varð yngsti handhafi Óskarsverðlaunanna fyrir besta frumsamda lagið árið 2008. Hún hlaut verðlaunin fyrir lagið „Falling Slowly” sem hún samdi með Glen Hansard fyrir kvikmyndina „Once” þar sem hún fór einnig með annað aðalhlutverk myndarinnar.
Það er engin önnur en Billie Eilish sem varð sú næst yngsta til þess að hljóta verðlaunin á síðustu Óskarsverðlaunahátíðinni. Sjálf var Markéta ekki orðin tvítug þegar hún hlaut heiðurinn.
Samstarf hjónanna dró hana til Íslands
Samstarf hjónanna hófst á vinnu við upptökur á plötunni MUNA árið 2012. Verkefnið var það sem fleytti Markétu upphaflega til Íslands. Síðan þá hafa þau ekki bara byggt og stofnað Masterkey Studios, þar sem þau hafa unnið að fjölmörgum verkefnum innlendum sem erlendum, heldur einnig eignast börn og stofnað fjölskyldu. Fjölskyldan þeirra samanstendur í dag af sex manneskjum og einum hundi.