Liprir Leedsarar léku sér að Chelsea

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bandaríkjamaðurinn Brenden Aaronson kom Leeds á bragðið.
Bandaríkjamaðurinn Brenden Aaronson kom Leeds á bragðið. Catherine Ivill/Getty Images

Chelsea hóf leikinn töluvert betur þar sem Raheem Sterling fékk gott færi til að skora eftir aðeins 30 sekúndur en skot hans fór fram hjá marki Leeds. Chelsea var þá ívið hættulegri aðilinn framan af en Leeds náði hins vegar forystunni eftir rúmlega hálftímaleik, nánast upp úr engu.

Edouard Mendy, markvörður Chelsea, fékk þá sendingu til baka, klappaði boltanum og ætlaði að leika á Bandaríkjamanninn Brenden Aaronson sem pressaði á hann. Aaronson vann af honum boltann á markteig Chelsea, og potaði honum í markið af línunni.

Aðeins fjórum mínútum eftir þetta afar klaufalega mark tvöfaldaði Spánverjinn Rodrigo Moreno forystu Leeds með góðu skallamarki eftir aukaspyrnu Jacks Harrison frá vinstri. Rodrigo var þar að skora þriðja leikinn í röð.

2-0 stóð í hléi og bjuggust einhverjir við að draga myndi af liði Leeds sem lagði gríðarlega orku í fyrri hálfleikinn. Eftir fínt áhlaup í upphafi síðari hálfleiksins virtust leikmenn Chelsea hins vegar ekki líklegir til að vinna sig inn í leikinn. Rodrigo launaði Jack Harrison greiðann úr fyrri hálfleiknum þegar hann lagði upp mark Harrisons á 69. mínútu leiksins.

Til að kóróna strembinn dag Chelsea fékk nýji miðvörðurinn Kalidou Koulibaly að líta rautt spjald þegar fimm mínútur lifðu leiks.

Leeds vann leikinn 3-0 og er með sjö stig eftir þrjá leiki í öðru sæti deildarinnar, fyrir ofan Tottenham og Brighton á markatölu. Chelsea er með fjögur stig í tólfta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira