Erlent

Sex­tán ára mun­að­ar­lausr­i stúlk­u gert að fæða barn vegn­a þrosk­a­leys­is

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarísk kona mótmælir hertum lögum gegn þungunarrofi.
Bandarísk kona mótmælir hertum lögum gegn þungunarrofi. Getty/Mark Rightmire

Bandarískir dómarar í Flórída komust að þeirri niðurstöðu í mánuðinum að sextán ára munaðarlaus stúlka sé ekki „nægilega þroskuð“ til að taka ákvörðun um að fara í þungunarrof. Hún verði að eignast barnið. Stúlkan hefur sagst vilja í þungunarrof og segist ekki tilbúin til að ala barn né hafa burði til þess.

Í dómskjölum er hún einungis nefnd sem Jane Doe en stúlkan hafði áfrýjað ákvörðun dómarans Jennifer J. Frydrychowicz, frá 10. ágúst. Þá var stúlkan komin tíu vikur á leið.

Stúlkan býr með ættingja sínum en ríkið hefur skipað henni forráðamann, samkvæmt frétt Miami Herald, og fer ríkið með forsjá hennar.

Þessi forráðamaður, sem er ekki nafngreindur í dómskjölum, studdi kröfu stúlkunnar um undanþágu frá lögum Flórída um þungunarrof, á þeim grundvelli að hún væri einungis sextán ára gömul.

Í upprunalegum úrskurði sínum skrifaði Frydrychowicz að stúlkan væri ekki nægilega þroskuð til að taka þessa ákvörðun og það væri skilyrði fyrir því að fá undanþágu. Hún skrifaði þó að stúlkan vær itrúverðug og einlæg er þær ræddu saman og sömuleiðis að stúlkan hefði á tímum sýnst nægilega þroskuð til að taka þessa ákvörðun.

Þrátt fyrir það sagði Frydrychowicz að stúlkan hefði ekki greint kosti og galla ákvörðunar hennar nægilega vel.

Þrír áfrýjunardómarar staðfestu upprunalega úrskurðinn í gær.

Stúlkan gæti reynt að fá dómarann til að skipta um skoðun en það gæti þó reynst henni erfitt. Eins og áður segir var stúlkan gengin tíu vikur þann 10. ágúst. Eftir fimmtán vikna meðgöngu mun hún ekki lengur eiga fræðilegan möguleika á undanþágu frá lögum Flórída.

Sömuleiðis er óljóst hvort henni verði leyft að fara frá Flórída til að fara í aðgerð annarsstaðar, þar sem hún er undir forsjá Flórída-ríkis.

Einn viðmælandi Miami Herald, sem var áður barnaverndardómari í Miami, sagði málið sláandi. Verið væri að þvinga tæplega sautján ára stúlku sem hefði orðið fyrir áfalli í lífinu til að eignast barn sem hún hvorki vildi né hefði efni á að eiga. Ríkið væri að valda henni öðru áfalli.

Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi í sumar úr gildi það dómafordæmi sem hefur í áratugi tryggt rétt kvenna til þungunarrofs og síðan þá hafa mörg ríki Bandaríkjanna hert lög varðandi þungunarrof gífurlega. Aðgerðin hefur jafnvel verið alfarið bönnuð í nokkrum ríkjum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.