Erlent

Sátu föst á lítilli eyju í miðri á í tæpan mánuð

Samúel Karl Ólason skrifar
Flóttafólk á Grikklandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Flóttafólk á Grikklandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/ALESSANDRO DI MEO

38 manna hópur flótta- og farandfólks fannst á smárri ónefndri eyju í á sem rennur með landamærum Grikklands og Tyrklands. Grískir björgunarmenn fundu 22 menn, níu konur og sjö börn á eyjunni í gær en þau höfðu verið á eyjunni frá því um miðjan júlí.

Minnst eitt barn dó á eyjunni og ein konan er ólétt og langt komin í meðgöngunni. Fólkið mun allt vera frá Sýrlandi.

Í frétt BBC er haft eftir ráðamönnum í Grikklandi að fólkið sé við góða heilsu og ólétta konan hafi verið flutt á sjúkrahús. Til stendur að vinna með Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum að því að sækja lík barnsins sem dó og jarðsetja það.

BBC hefur eftir einni konu úr hópnum að þeim líði eins og fótbolta sem Tyrkir og Grikkir sparka sín á milli. Enginn vilji taka á móti þeim. Enginn vilji hlusta á þau og enginn vilji hjálpa þeim.

Grikkir hafa lengi verið sakaðir um að brjóta á réttindum flóttafólks og reka það aftur til Tyrklands, án þess að gefa fólki tækifæri á því að sækja um hæli. Þetta hefur meðal annars leitt til deilna innan Evrópusambandsins en Grikkir hafa verið sakaðir um að brjóta gegn grunngildum ESB.

Áin sem eyjan er í kallast Evros og er eyjan skammt frá gríska bænum Lavara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×