Fótbolti

Redknapp: Martinez of lítill til að spila í hjarta varnarinnar

Hjörvar Ólafsson skrifar
Lisandro Martinez hefur verið í miklum vandræðum í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum með Manchester United. 
Lisandro Martinez hefur verið í miklum vandræðum í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum með Manchester United.  Vísir/Getty

Jamie Redknapp, sérfræðingur Skysports um ensku úrvalsdeildina í fótbolta karla, telur að Manchester United geti ekki stillt argentínska leikmanninum Lisandro Martinez upp í hjarta varnarinnar ætli liðið að snúa taflinu sér í vil í næstu leikjum liðsins.

Redknapp telur að andstæðingar Manchester United muni herja á Martinez með líkamlegum styrk leikmanna sins með góðum árangri. Martinez er lægsti varnarmaðurinn í deildinni en hann er 175 sentímetrar.

„Jafn lágvaxinn leikmaður og Martinez er hefur ekki þann líkamlega styrk sem þarf að búa yfir til þess að spila sem miðvörður í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta getur virkað í hollensku efstu deildinni en ekki í þeirri ensku. Brighton afhjúpaði þennan veikleika í fyrstu umferðinni og Brentford notfærði sér líkamlega yfirburði sína í vítateignum. Liverpool mun gera slíkt hið sama um næstu helgi ef Erik ten Hag stillir honum áfram upp sem í miðri vörninni," sagði Redknapp á Skysports eftir leikinn. 

„Þetta er tæknilega góður leikmaður sem getur nýst liðinu vel á miðsvæðinu en þessi tilraun að nota hann sem miðvörð gekk ekki upp og þetta mun ekkert lagast," sagði hann enn fremur .

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, sagði í samtali við Skysports eftir frækinn sigur liðsins gegn Manchester United í gær að liðið hefði beitt fleiri löngum boltum en það gerði vanalega og beindi þeim að svæðum þar sem Martinez væri staddur.

Lagt hafi verið upp með að sækja á Martinez og vinna einvígi við hann bæði í opnum leik sem og föstum leikatriðum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.