Fótbolti

Elías Már skoraði markið sem skildi liðin að

Hjörvar Ólafsson skrifar
Elías Már Ómarsson var á skotskónum fyrir Nimes í dag. 
Elías Már Ómarsson var á skotskónum fyrir Nimes í dag.  Mynd/Nimes

Elías Már Ómarsson skoraði sigurmark Nimes Olympique þegar liðið mætti Rodez í þriðju umferð frönsku B-deildarinnar í fótbolta karla í dag. 

Elías Már tryggði liði sínu stigin þrjú þegar hann fann netmöskvana á marki Rodez eftir rúmlega klukkutíma leik en skömmu síðar var keflvíski framherjinn tekinn af velli. 

Þetta er fyrsta markið sem Elías Már skorar í deildinni á nýhafinni leiktíð en Nimes hefur fjögur stig eftir fyrstu þrjá leiki sína og situr í tíunda sæti deildarinnar. 

Þessi 27 ára gamli leikmaður skoraði sjö mörk í deild og bikar á fyrsta keppnistímabili sínu með Nimes á síðustu leiktíð en hann gekk til liðs við franska félagið frá hollenska félaginu Excelsior fyrir ári síðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×