Innlent

UMFÍ tekur við rekstri Skóla­búðanna að Reykjum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá vinstri: Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skóla- og Ungmennabúða, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, fráfarandi sveitarstjóri og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.
Frá vinstri: Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skóla- og Ungmennabúða, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, fráfarandi sveitarstjóri og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. UMFÍ

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) mun taka við rekstri Skólabúðanna að Reykjum frá næsta skólaári. Um 3.200 nemendur í 7. bekk í grunnskóla heimsækja búðirnar ár hvert.

Í dag skrifaði Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, undir samning um rekstur á Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði frá og með næsta skólaári. Sveitarstjórn Húnaþings vestra auglýsti í mars á þessu ári um samstarfsaðila um rekstur búðanna.

„Þetta er ánægjulegur dagur. Við fögnum því að að náðst hafi samkomulag við UMFÍ og erum spennt fyrir samstarfinu,“ sagði Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, fráfarandi sveitarstjóri Húnaþings vestra, við undirritunina.

Áhersla lögð á félagsleg markmið

Í umboði Húnaþings vestra mun UMFÍ annast rekstur skólabúðanna en um 3.200 grunnskólabörn af öllu landinu sækja búðirnar á hverju skólaári. Í rekstrarsamningi kemur meðal annars fram að í skólabúðunum sé unnið eftir Heimsmarkmiðum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og aðalnámskrá grunnskóla.

Sérstök áhersla er lögð á uppeldis- og félagsleg markmið. Í skólabúðunum eru nemendur einnig kynntir fyrir sögu og atvinnuháttum á landsbyggðinni með skipulagðri safnakennslu í samstarfi við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.

„Þetta eru tímamót hjá okkur í UMFÍ. Í Skólabúðunum að Reykjum munum við halda áfram með óformlegt nám eins og við gerum í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Starfsemin verður að mestu með óbreyttu sniði en okkar góðu áherslur UMFÍ og gildi sem fela í sér gleði, þátttöku og samvinnu verður í forgrunni þar sem ungmennafélagsandinn verður leiðarljósið,“ segir Auður Inga.

UMFÍ er nú þegar við með starfræktar ungmennabúðir á Laugarvatni en þangað fara um tvö þúsund nemendur í 9. Bekk ár hvert.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×