Fótbolti

Fjölnir vann stórsigur og Grótta kom til baka

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Grótta vann endurkomusigur í kvöld.
Grótta vann endurkomusigur í kvöld. Grótta.is

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld þegar Fjölnir vann öruggan 1-4 útisigur gegn KV og Grótta vann 4-2 sigur gegn Aftureldingu.

Fjölnismenn voru ekkert að slóra þegar liðið heimsótti KV, en Arnar Númi Gíslason kom gestunum yfir strax á fimmtu mínútu leiksins áður en Dagur Ingi Axelsson bætti öðru marki við níu mínútum síðar.

Hákon Ingi Jónsson bætti svo tveimur mörkum við með tíu mínútna millibili í síðari hálfleik, en Jökull Tjörvason klóraði í bakkann fyrir heimamenn í uppbótartíma og niðurstaðan því 1-4 sigur Gróttu.

Fjölnir situr nú í þriðja sæti Lengjudeildarinnar með 27 stig eftir 16 leiki. KV situr hins vegar í næst neðsta sæti deildarinnar með 11 stig.

Þá vann Grótta mikilvægan 4-2 endurkomusigur gegn Aftureldingu þar sem gestirnir frá Mosfellsbæ komust yfir í tvígang.

Marciano Aziz kom Aftureldingu yfir á 26. mínútu með marki af vítapunktinum áður en Luke Rae jafnaði metin snemma í síðari hálfleik. Marciano Aziz kom gestunum yfir á nýjan leik úr annarri vítaspyrnu á 59. mínútu, en Kjartan Kári Halldórsson jafnaði metin fyrir heimamenn fimm mínútum fyrir leikslok.

Ívan Óli Santos kom Gróttu svo yfir tveimur mínútum síðar áður en Luke Rae tryggði liðinu 4-2 sigur í fjörugum leik.

Grótta situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig eftir 16 leiki, þremur stigum meira en Afturelding sem situr í sjötta sæti.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara fengust á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×