Íslenski boltinn

Ísak Snær ekki með í Tyrk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Snær í fyrri leik liðanna.
Ísak Snær í fyrri leik liðanna. Vísir/Hulda Margrét

Ísak Snær Þorvaldsson er ekki með Breiðablik er liðið mætir İstanbul Başakşehir F.K. í síðari leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Hann er að glíma við meiðsli.

Blikar eru með bakið upp við vegg eftir að tapa fyrri leiknum 1-3 á Kópavogsvelli þrátt fyrir mjög fína frammistöðu. 

Verkefni Kópavogspilta varð ekki auðveldara er ljóst var að Ísak Snær gæti ekki ferðast með liðinu til Tyrklands þar sem hann er að glíma við smávægileg meiðsli. Vonast er til þess að hann verði klár í stórleik Breiðabliks og Víkings á mánudaginn kemur.

Ísak Snær hefur verið einn albesti leikmaður Íslandsmótsins það sem af er sumri. Þar er hann markahæstur með 12 mörk ásamt því að leggja upp sex til viðbótar. Þá hefur hann skorað tvö mörk í tveimur leikjum í Mjólkurbikarnum og tvö mörk til viðbótar í Evrópu.

Það er ljóst að brekkan verður brattari án Ísaks en Óskar Hrafn Þorvaldsson gerir fjórar breytingar á liði Blika frá því í fyrri leiknum. Davíð Ingvarsson, Viktor Örn Margeirsson og Oliver Sigurjónsson fara allir á bekkinn á meðan Ísak Snær var skilinn eftir heima. Inn í byrjunarliðið koma þeir Andri Rafn Yeoman, Mikkel Qvist, Kristinn Steindórsson og Omar Sowe.

Leikur İstanbul Başakşehir og Breiðabliks hefst nú klukkan 17.45 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 4. Útsendingin hefst klukkan 17.30. Þá er leikurinn í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×