Um­fjöllun: İstan­bul Başakşehir-Breiða­blik 3-0 | Tyrkneska liðið of stór biti fyrir Blika

Hjörvar Ólafsson skrifar
Stafeno Okaka kom Istanbul Basaksehir á bragðið í leiknum en Andri Rafn Yeoman lék vel inni á miðsvæðinu hjá Breiðabliki. 
Stafeno Okaka kom Istanbul Basaksehir á bragðið í leiknum en Andri Rafn Yeoman lék vel inni á miðsvæðinu hjá Breiðabliki.  Vísir/Getty

Breiðablik laut í lægra haldi, 3-0, þegar liðið sótti Istanbul Basaksehir heim á Basaksehir Fatih Terim-leikvanginn í Istanbúl í seinni leik liðanna í þriðju umferð í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta karla í kvöld. Istanbul Basaksehir vann einvígið samanlagt 6-1 og fer þar af leiðandi áfram í umspil um laust sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason, þjálfarar Breiðablik, gerðu fimm breytingar á byrjunarliði sínu frá tapinu gegn Stjörnunni í síðasta leik liðsins.

Viktor Örn Margeirsson, Davíð Ingvarsson, Oliver Sigurjónsson og Anton Logi Lúðvíksson fengu sér sæti á varamannabekknum. Þá var Ísak Snær Þorvaldsson ekki með í þessum leik vegna höfuðmeiðsla. Mikkel Qvist, Dagur Dan Þórhallsson, Andri Rafn Yeoman, Gísli Eyjólfsson og Omar Sowe tók sæti þeirra í byrjunarliðinu.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en náðu sjaldan að opna vörn Blika. Þeir reyndu fyrir með langskotum og ógnuðu einnig úr föstum leikatriðum.

Það var svo skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks sem Stefano Okaka kom Istanbul Basaksehir yfir. Eftir snarpa sókn komst Ömer Ali Sahiner innfyrir vörn Breiðabliks hægra megin. Sahiner fann Okaka einan á auðum sjó í vítateig gestanna og ítalski markahrókurinn skilaði boltanum í netið.

Jason Daði Svanþórsson komst í fína stöðu eftir laglega sókn Blika undir lok fyrri hálfleiks en framherjinn eignlega hvorki sendi fyrir né skaut og sóknin rann út í sandinn.

Hitinn tók sinn toll þegar líða tók á leikinn

Breiðablik gerði eina breytingu í hálfleik. Omar Sowe sem fékk tvisvar sinnum höfuðhögg í fyrri hálfeik fór af velli og Davíð Ingvarsson leysti hann af hólmi.

Blikar fengu gott tækifæri til þess að jafna metin í upphafi seinni hálfleiks. Pressa þeirra bar þá árangur og Mikkel Qvist renndi boltanum á Viktor Karl Einarsson en Youssouf Ndayishimiye komst í veg fyrir skot hans á síðustu stundu.

Ahmed Touba tvöfaldaði svo forystu Istanbul Basaksehir þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Touba fékk þá boltann inni í markteig Blika og skoraði með skoti af stuttu færi. Eftir markið gerðu Blikar aðra skiptingu sínu í leiknum en fyllti Anton Logi Lúðvíksson fyllti þá skarð Andra Rafns inni á miðsvæðinu.

Danijel Aleksic rak svo síðasta naglann í líkkistu Breiðabliks á 84. mínútu leiksins. Aleksic, sem kom inná sem varamaður, fékk boltann eftir samvinnu tveggja annarra varamanna, Patryk Szysz og Mounir Chouiar, og setti boltann í fjærhornið. Serbneski miðjumaðurinn skoraði tvö mörk í sigri Istanbul Basaksehir í fyrri leiknum í Kópavoginum.

Breiðablik sendi Elfar Frey Helgason, Sölva Snæ Guðbjargarson og hinn 18 ára gamla Viktor Elmar Gautason á vettvang fyrir Höskuld Gunnlaugsson, Jason Daða Svanþórsson og Viktor Karl Einarsson undir lok leiksins.

Niðurstaðan í leiknum 3-0 tap Blika sem eru úr leik í Evrópukeppni þetta keppnistímabilið.

Af hverju vann Istanbul Basaksehir?

Heimamenn voru sterkari aðilinn í leiknum og fengu fleiri færi í leiknum. Framan af leik gekk leikmönnum Istanbul Basaksehir illa að brjóta vörn Blika á bak aftur. Það fór hins vegar að gæta á þreytu hjá Blikum þegar líða tók á leikinn og þá losnaði um leikmenn tyrkneska liðsins sem gengu á lagið. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Damir Muminovic var öflugur í vörn Blika, Andri Rafn og Viktor Karl Einarsson unnu vel fyrir kaupi sínu inni á miðsvæðinu og Gísli Eyjólfsson og Jason Daði Svanþórsson voru manna líflegastir í sóknarleiknum. 

Hvað gerist næst?

Breiðablik og Víkingur leiða saman hesta sína í toppslag í Bestu deildinni á mánudaginn kemur. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira