Fótbolti

Arnór Ingvi til Norrköping | Ari Freyr með enn einn leiksigurinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnór Ingvi Traustason hefur dregið sig úr íslenska hópnum.
Arnór Ingvi Traustason hefur dregið sig úr íslenska hópnum. Getty

Arnór Ingvi Traustason er snúinn aftur til Norrköping í Svíþjóð en hann kemur frá New England Revolution í Bandaríkjunum. Arnór lék með sænska liðinu frá 2014 til 2016.

Skipti Arnórs Ingva voru tilkynnt á heimasíðu félagsins í dag. Hann lék með Norrköping á fyrrnefndu tímabili og vann sænska meistaratitilinn með félaginu árið 2015. Hann var eftir EM sumarið 2016 keyptur til Rapid Wien í Austurríki og fór á skammvinnum lánssamningi þaðan til AEK í Aþenu árið 2017.

Hann sneri aftur til Svíþjóðar árið 2018 og lék með Malmö til ársloka 2020 þegar hann samdi við New England. Arnór fer nú til Svíþjóðar í þriðja sinn og semur við Íslendingalið Norrköping.

Arnór Ingvi er fimmti Íslendingurinn í Norrköping en fyrir eru þeir Ari Freyr Skúlason, Arnór Sigurðsson, Andri Lucas Guðjohnsen og Jóhannes Kristinn Bjarnason.

Norrköping hefur átt í miklum vandræðum á leiktíðinni en það vann sinn fyrsta leik í tæpa þrjá mánuði um helgina. Liðið hefur styrkt sig töluvert í sumarglugganum og þá aðallega með Íslendingum, en þeir Arnór Sigurðsson og Andri Lucas Guðjohnsen sömdu báðir við liðið í síðasta mánuði.

Myndböndin sem Norrköping hefur framleitt til að kynna leikmennina til leiks hafa vakið töluverða athygli, þar sem Ari Freyr er gjarnan í aðalhlutverki er hann býður landa sína velkomna til leiks. Slíkt var enn á ný uppi á teningunum í dag en myndskeið dagsins má sjá að ofan en það frá kynningu Arnórs Sig og Andra Lucasar að neðan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.