Erlent

Konan sem ásakaði Emmett Till um áreitni mun ekki sæta ákæru

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Emmett Till og Carolyn Bryant Donham.
Emmett Till og Carolyn Bryant Donham. AP

Ákærukviðdómur í Mississippi í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að það liggi ekki næg sönnunargögn fyrir til að gefa út ákæru á hendur Carolyn Bryant Donham, hvers ásakanir urðu til þess að táningnum Emmett Till var rænt og hann skotinn í höfuðið árið 1955.

Fyrr í sumar fundust óútgefnar handtökuskipanir á hendur Donham, þáverandi eiginmanni hennar og mági. Eiginmaðurinn og mágurinn voru handteknir og sýknaðir af morðinu á Till en Donham sætti aldrei gæsluvarðhaldi vegna málsins. Mennirnir játuðu síðar að hafa orðið Till að bana.

Í óútefnum endurminningum Donham kemur fram að hún hafi ekki haft vitneskju um þau örlög sem biðu Till. Donham sagði að mennirnir hefðu komið með Till til sín um miðja nótt til að hún gæti borið kennsl á hann og hún hefði reynt að bjarga honum með því að segja að þetta væri ekki drengurinn sem hefði áreitt hana. 

Hélt Donham því fram að Till hefði sjálfur komið upp um sig. 

Við réttarhöldin yfir mönnunum sagði Donham að Till hefði gripið í sig og látið ósæmileg orð falla en hún er sögð hafa játað það seinna að það hefði ekki verið satt. Samkvæmt vitnum ku Till hafa flautað að henni, í mesta lagi.

Illa farið lík Till fannst í Tallahatchie-ánni nokkrum dögum síðar og málið komst í heimsfréttirnar þegar móðir hans, Mamie Till Mobley, ákvað að hafa kistu hans opna til vitnisburðar um barsmíðarnar sem hann hafði sætt. 

Höfðu myndir af líkamsleifum Till gríðarleg áhrif á mannréttindabaráttu svartra þegar þær voru birtar í Bandaríkjunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.