Fótbolti

Arnór snýr aftur og hálft byrjunarlið af Íslendingum í hópnum

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Ingvi Traustason er á förum frá Bandaríkjunum aftur til Svíþjóðar.
Arnór Ingvi Traustason er á förum frá Bandaríkjunum aftur til Svíþjóðar. Getty/Andrew Katsampes

Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason er búinn að skrifa undir samning við sænska knattspyrnufélagið Norrköping. Hann snýr þangað aftur eftir að hafa spilað með New England Revolution í Bandaríkjunum síðustu misseri.

Þetta fullyrðir sænska stórblaðið Aftonbladet í dag og segir að tilkynnt verði um komu Arnórs til Norrköping á næstunni, mögulega strax á morgun.

Norrköping heldur því áfram að fá til sín Íslendinga en á síðustu vikum hefur félagið einnig fengið til sín Arnór Sigurðsson og Andra Lucas Guðjohnsen. Fyrir í aðalhópi félagsins voru svo þeir Ari Freyr Skúlason og Jóhannes Kristinn Bjarnason, svo að tæplega hálft byrjunarlið Norrköping gæti verið skipað Íslendingum ef vilji er til.

Expressen hefur áður sagt að Arnór Ingvi geri langtímasamning við Norrköping. Hann sló í gegn með liðinu á árunum 2014-2016 en skrifaði svo undir samning við Rapid Vín í Austurríki rétt áður en EM í Frakklandi hófst, þar sem Arnór Ingvi sló svo rækilega í gegn með sigurmarkinu ógleymanlega gegn Austurríki.

Norrköping vann Degerfors í síðasta leik sínum í sænsku úrvalsdeildinni og er í 11. sæti af 16 liðum, eftir sautján umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×