Enski boltinn

Klopp líkir leikjaálaginu við loftslagsbreytingar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp segir að leikjaálagið sé vandamál sem allir viti af, en ræði ekki.
Jürgen Klopp segir að leikjaálagið sé vandamál sem allir viti af, en ræði ekki. Mike Hewitt/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur líkt leikjaálaginu í ensku úrvalsdeildinni við loftslagsbreytingar. Hann segir ráðamenn deildarinnar vita af vandamálinu, en að þeir geri ekkert í því.

Það er ekki nýtt á nálinni að Klopp láti í sér heyra þegar kemur að leikjaálagi í ensku úrvalsdeildinni. Deildin í ár verður þó með öðru sniði en áður þar sem gera þarf hlé á deildinni þegar heimsmeistaramótið fer fram í nóvember og desember í Katar. Engir leikir verða leiknir í ensku úrvalsdeildinni frá 13. nívember til 25. desember.

„Þegar við byrjum að tala um þetta þá verð ég mjög reiður,“ sagði Klopp um leikjaniðurröðun ensku úrvalsdeildarinnar.

„Þetta er eins og með loftslagsbreytingarnar. Við vitum öll að við þurfum að breyta einhverju, en fólk segir bara: „Hvað þurfum við að gera?“ Ég er klárlega meðal þeirra, engin spurning.“

„Vandamálið eru leikmenn sem munu spila á HM. Þetta er bara ekki í lagi. Ef þú kemst í undanúrslit þá ertu búinn að spila fullt af leikjum, en svo byrjar deildin bara viku seinna.“

„Það sem ég hef á móti þessu er að allir vita að þetta er ekki í lagi, en það talar enginn nægilega mikið um þetta til að þessu verði breytt. Eitthvað þarf að breytast.“

„Það þarf að halda fund þar sem allir setjast niður og það eina sem ætti að vera á dagskrá á fundinum er það mikilvægasta við leikinn - leikmennirnir. En það hefur ekki enn gerst“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×