Enski boltinn

„Ert þú náunginn sem ætlar að spyrja um Haaland í hverri viku?“

Sindri Sverrisson skrifar
Mikil eftirvænting ríkir vegna frumraunar Erlings Haaland í ensku úrvalsdeildinni.
Mikil eftirvænting ríkir vegna frumraunar Erlings Haaland í ensku úrvalsdeildinni. Getty

Pep Guardiola vill ekki vera að giska á hvað nýjasta stórstjarnan í liði Manchester City, Erling Braut Haaland, kemur til með að skora mörg mörk fyrir liðið í vetur.

Haaland lék allan leikinn þegar City tapaði fyrir Liverpool í leiknum um Samfélagsskjöldinn um síðustu helgi og klúðraði þar meðal annars dauðafæri. Hann spilar væntanlega sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag þegar City mætir West Ham.

Á blaðamannafundi í gær vildi norskur blaðamaður vita hvað Guardiola héldi að Haaland myndi skora mörg mörk á leiktíðinni en knattspyrnustjórinn svaraði brosandi:

„Ert þú náunginn sem ætlar að spyrja um Haaland í hverri viku?“ og uppskar hlátur. Hann bætti hins vegar við alvarlegri í bragði:

„Hvað mun hann skora mörg mörk? Mér er sama. Við vinnum ekki fyrir Erling eða töpum fyrir Erling. Við verðum að vera við sjálfir. Hann er fljótur og í síðustu viku spilaði hann 90 mínútur í fyrsta sinn í fimm mánuði. Hann er stór og líkamlega sterkur leikmaður, svo hann þarf kannski aðeins meiri tíma til að komast í toppform.

Hann mun skora mörk. Það hefur hann gert á hverju einasta keppnistímabili. Ég efast ekki vitund um að hann muni standa sig en hve mörg mörkin verða veit ég ekki.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.