Enski boltinn

Ten Hag: Cristiano Ronaldo þarf að sanna sig fyrir mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er enginn séra Jón hjá Erik ten Hag ekki einu sinni Cristiano Ronaldo sem fagnar hér marki fyrir Manchester United á móti Brentford á Old Trafford á síðasta tímabili.
Það er enginn séra Jón hjá Erik ten Hag ekki einu sinni Cristiano Ronaldo sem fagnar hér marki fyrir Manchester United á móti Brentford á Old Trafford á síðasta tímabili. Getty/Naomi Baker

Cristiano Ronaldo er markahæsti leikmaður sögunnar og með mörk og titla á ferilskránni sem gera tilkall til þess að hann sé sá besti sem hefur spilað leikinn. Það dugar honum skammt þegar kemur að nýja knattspyrnustjóranum hans á Old Trafford.

Hollendingurinn Erik ten Hag tók við liði Manchester United í sumar og það er enginn séra Jón hjá honum ef marka má nýtt viðtal.

Ronaldo hefur verið að reyna að komast í burtu frá United í allt sumar en kom í fyrsta sinn við sögu í æfingarleik um helgina. Ronaldo var tekinn út af í hálfleik og yfirgaf Old Trafford áður en leiknum lauk við litlar vinsældir hjá Ten Hag.

Ten Hag var spurður út í stöðuna á Ronaldo og það er klárt að portúgalska goðsögnin labbar ekkert inn í liðið hjá honum. Hann þarf að komast í alvöru leikform fyrst.

„Ég held að hann geti komist í sitt allra besta form. Hann var bara að byrja undirbúninginn sinn fyrir tímabilið og hann er frábær fótboltamaður. Hann hefur sannað það svo oft,“ sagði Erik ten Hag.

Ef Ronaldo ætlar að spila alvöru hlutverk hjá United á komandi tímabili þá þarf að hann standa sig á æfingasvæðinu og komast í sitt besta leikform.

„Þú verður aftur á móti alltaf metinn út frá því sem þú ert að skila núna, hvað þú ert að bjóða upp á og hver frammistaðan þín er á þessum tímapunkti. Liðið og Cristiano sjálfur þurfa að sýna það og sanna. Ronaldo þarf að koma sér í form og sanna sig,“ sagði Ten Hag.

Það má sjá viðtalsbrotið hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.