Erlent

Fjölskylda Assange vill að stjórnvöld í Ástralíu setji Bandaríkjunum afarkosti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
John Shipton, faðir Julian Assange, berst nú fyrir því að fá stjórnvöld í Ástralíu til að þrýsta á Bandaríkjamenn um lausn sonar síns.
John Shipton, faðir Julian Assange, berst nú fyrir því að fá stjórnvöld í Ástralíu til að þrýsta á Bandaríkjamenn um lausn sonar síns. epa/Andy Rain

Fjölskylda Julian Assange, stofnanda Wikileaks, segir það jafngilda dauðadómi ef Assange verður framseldur frá Bretlandi til Bandaríkjanna. John Shipton, faðir Assange, og bróðir hans Gabriel Shipton, hafa freistað þess að fá stjórnvöld í Ástralíu, heimalandi Assange, til að grípa inn í en segjast ekki hafa fengið fund með forsætisráðherranum Anthony Albanese.

Albanese, sem tók við völdum í júní síðastliðnum, hefur sagt að stjórnvöld muni freista þess að leggja sitt af mörkum eftir diplómatískum leiðum, þar sem það sé ekki æskilegt að stunda utanríkismál í gegnum gjallarhorn.

Faðir Assange segist hins vegar vera að missa vonina varðandi aðkomu Albanese og að stjórnvöld gætu hæglega tekið upp símann og krafist þess af Joe Biden Bandaríkjaforseta að Bandaríkjamenn láti af framsalskröfu sinni. Ástralía sé mikilvægur bandamaður Bandaríkjanna um þessar mundir og Ástralir gætu hreinlega gert lausn Assange að skilyrði fyrir samvinnu.

Fram kom í minnisblaði að stjórnvöld hefðu skoðað þann möguleika að Assange fengi að afplána í Ástralíu ef hann yrði fundinn sekur um njósnir í Bandaríkjunum. Shipton segir hins vegar ógeðfellt að fresta inngripi þar til eftir réttarhöld. Hann segir þau gætu tekið mörg ár og þá bendir bróðir Assange á þá staðreynd að sérfræðingar hafi sagt Assange í mikilli sjálfsvígshættu ef framsal verður niðurstaðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×