Erlent

Íbúar Kansas standa vörð um rétt kvenna til þungunarrofs

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Niðurstöðunni var víðsvegar fagnað en á öðrum stöðum grétu viðstaddir og báðu.
Niðurstöðunni var víðsvegar fagnað en á öðrum stöðum grétu viðstaddir og báðu. AP/Kansas City Star/Tammy Ljungblad

Íbúar í Kansas í Bandaríkjunum höfnuðu því í atkvæðagreiðslu í gær að fjarlægja ákvæði úr stjórnarskrá ríkisins þar sem konum er tryggður rétturinn til þungunarrofs. 

Ákveðið var að efna til atkvæðagreiðslunnar í kjölfar þess að Hæstiréttur Bandaríkjanna ógilti niðurstöðu dómsins í máli Roe gegn Wade.

Það fordæmi hafði um áratuga skeið tryggt konum réttin til þungunarrofs í öllum ríkjum Bandaríkjanna. 

Afgerandi niðurstöður atkvæðagreiðslunnar í Kansas komu nokkuð á óvart en þegar 80 prósent atkvæða höfðu verið talin reyndust 61 prósent hafa kosið að viðhalda réttinum en 39 prósent að fella ákvæðið úr stjórnarskránni. 

Þetta þýðir að atkvæði féllu ekki eftir flokkslínum en meðal íbúa Kansas eru mun fleiri skráðir repúblikanar en demókratar. 

Milljónum dala var varið í kosningabaráttuna en um er að ræða fyrstu íbúakosningarnar sem haldnar eru um réttinn til þungunarrofs frá því að dómur Hæstaréttar féll.

Stuðningsmenn viðaukans sem kosið var um, sem kvað á um að fella úr gildi stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs, bentu á að samþykki hans þýddi ekki endilega að þungunarrof yrðu gerð óheimil heldur að valdið til að taka ákvörðun um málið yrði í höndum löggjafans.

Margir stuðningsmenn þungunarrofa sögðust hins vegar óttast að breytingin yrði til þess að nær algjört bann gegn þungunarrofum yrði samþykkt á næstu mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×