Enski boltinn

Arsenal skoraði sex á Sevilla á meðan Man Utd tapaði fyrir Atletico

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Gabriel Jesus virðist vera klár í slaginn!
Gabriel Jesus virðist vera klár í slaginn! vísir/Getty

Ensku liðin eru í lokaundirbúningi sínum áður en flautað verður til leiks í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.

Tvö af stærstu liðum Englands voru að ljúka æfingaleikjum gegn tveimur af stærstu liðum Spánar þar sem Man Utd mætti Atletico Madrid á meðan Arsenal lék gegn Sevilla.

Þetta var síðasti æfingaleikur Arsenal áður en þeir mæta Crystal Palace í opnunarleik úrvalsdeildarinnar næstkomandi föstudag og lærisveinar Mikel Arteta héldu uppteknum hætti eftir að hafa farið létt með Chelsea á dögunum, 4-0.

Arsenal hreinlega valtaði yfir Sevilla í dag þar sem Gabriel Jesus og Bukayo Saka sáu um að ná 4-0 forystu á fyrstu tuttugu mínútum leiksins. 

Aðeins róaðist í síðari hálfleik en Jesus fullkomnaði þó þrennu sína á 77.mínútu og kom Arsenal í 5-0. Eddie Nketiah rak svo síðasta naglann í kistu Sevilla á 88.mínútu og innsiglaði 6-0 sigur Arsenal.

Það var ekki sama fjörið í leik Man Utd og Atletico sem leikinn var í Osló. 

Þar gerði Joao Felix eina mark leiksins á 86.mínútu og tryggði Atletico 1-0 sigur. Skömmu síðar fékk brasilíski miðjumaðurinn Fred að líta rauða spjaldið.

Erik Ten Hag gerði aðeins þrjár skiptingar í leiknum en Christian Eriksen lék sinn fyrsta leik í búningi Man Utd þegar hann kom inná fyrir Anthony Martial í síðari hálfleik.

Man Utd leikur æfingaleik gegn Rayo Vallecano á Old Trafford á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×