Íslenski boltinn

Þakkar stuðningsmönnum annarra liða fyrir að láta sig heyra það

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kristall Máni er haldinn til Noregs.
Kristall Máni er haldinn til Noregs. Vísir/Diego

Kristall Máni Ingason lék í vikunni sinn síðasta leik fyrir Víking Reykjavík, að minnsta kosti í bili. Hann þakkaði ekki einungis stuðningsmönnum þeirra fyrir sig, heldur allra hinna liðanna í deildinni einnig.

Kristall Máni samdi við norska stórliðið Rosenborg frá Þrándheimi um miðjan júlí og gengur formlega í þeirra raðir þann 1. ágúst þegar félagsskiptaglugginn í Noregi opnar.

Hann mun þó ekki taka þátt í leik Víkings við Stjörnuna í Bestu deild karla í fótbolta klukkan 14:00 í dag. Víkingur sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem Kristali var þakkað fyrir sín störf og jafnframt var tekið fram að jafntefli Víkings við TNS í miðri viku hafi verið hans síðasti leikur.

Kristall þakkaði einnig fyrir sig en hann tók á samfélagsmiðilinn Twitter þar sem hann sagði: „Takk fyrir mig Besta deildin. Og vil ekki bara þakka stuðningsmönnum Víkings fyrir heldur líka stuðningsmönnum hinna 11 liðanna fyrir að láta mann heyra það,“

Víkingur og Stjarnan eigast við klukkan 14:00 á Samsung-vellinum í Garðabæ. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst bein útsending klukkan 13:50.

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×