Fótbolti

HK aftur á topp Lengjudeildar | Vestri með stórsigur

Atli Arason skrifar
Ásgeir Marteinsson skoraði annað mark HK.
Ásgeir Marteinsson skoraði annað mark HK. vísir/bára

HK endurheimti toppsæti Lengjudeildarinnar með 2-1 sigri á Gróttu í kvöld. Vestri vann öruggan 4-0 sigur á Þrótti Vogum á meðan Þór vann annan leikinn í röð, 1-2 útisigur gegn Grindavík.

Alexander Már Þorláksson skoraði bæði mörk Þórs á fyrstu rúmu tuttugu mínútum leiksins en Dagur Ingi Hammer Gunnarsson minnkaði muninn fyrir heimamenn í Grindavík 8 mínútum fyrir leikslok

Með sigrinum jafna Þórsarar Grindvíkinga af stigum. Bæði lið eru nú með 17 stig en Grindvíkingar eru með betri markatölu í 8. sæti á meðan Þór er með neikvæða markatölu upp á sjö mörk, sem gerir að verkum að þeir eru í 10. sæti.

Vestri átti ekki í vandræðum með Þrótt Vogum á Ísafirði. Nacho Gil skoraði fyrstu tvö mörkin á 5. og 8. mínútu áður en Silas Songani, leikmaður Vestra, fékk rautt spjald rétt fyrir leikhlé. Það kom þó ekki að sök þar sem Vestri bætti við tveimur mörkum í viðbót þrátt fyrir að vera einum leikmanni færri. Pétur Bjarnason og Deniz Yaldir gerðu sitt hvort markið á síðustu 20 mínútunum

Vestri fer upp fyrir Selfoss í 6. sæti deildarinnar með 22 stig en Þróttur Vogum verður áfram fast við botninn, liðið er í 12. sæti með 5 stig eftir 14 umferðir.

Í Kópavoginum vann HK endurkomusigur gegn Gróttu í stórleik kvöldsins í Lengjudeildinni. Gabríel Hrannar Eyjólfsson kom Gróttu yfir á 12. mínútu áður en Ásgeir Marteinsson jafnar leikinn á 35. mínútu. Stefán Ingi Sigurðsson reyndist svo hetja HK þegar hann skoraði sigurmarkið hálftíma fyrir leikslok

HK fer því á toppinn með 31 stig, með einu stigi meira en Fylkir sem er í næsta sæti fyrir neðan. Grótta er hins vegar í 4. sæti með 22 stig.

Upplýsingar um gang leikja og markaskorara koma af vef Fotbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×