Innlent

Hatur eins og þetta þoli illa dags­ljósið

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Margrét Lilja Vilmundardóttir og Pétur G. Markan ásamt bréfinu sem þau fengu. Myndin er samsett.
Margrét Lilja Vilmundardóttir og Pétur G. Markan ásamt bréfinu sem þau fengu. Myndin er samsett. Aðsent

Pétur G. Markan, biskupsritari og Margrét Lilja Vilmundardóttir, prestur í Fríkirkjunni Hafnarfirði fengu dularfullt bréf inn um lúguna nú á dögunum. Í bréfinu má sjá fordómafulla orðræðu gagnvart hinsegin samfélaginu og segja þau bréfið sýna hversu mikilvægt sé að halda baráttunni áfram.

Í samtali við fréttastofu segir Margrét, sem er gjarnan kölluð Milla, að þeim hjónum hafi brugðið þegar bréfið kom til þeirra, en fyrst og fremst brugðið vegna innihalds bréfsins.

Hún segir þau hjónin vera svo heppin að þau hafi ekki fundið fyrir fordómum sem þessum á eigin skinni „Þannig að mér finnst svo mikilvægt að svona fái ekki að bara liggja einhvers staðar í einhverri þögn,“ segir Milla. 

Hún segir bréfið gott dæmi um það hvað samfélagið þurfi að vera vakandi fyrir fordómum sem þessum. Henni þykir hatursfull umræða vera mikil upp á síðkastið og tekur sem dæmi skemmdir sem unnar voru á regnbogafána fyrir framan Grafarvogskirkju.

„Mér finnst vera aftur að koma einhver svona pínu bylgja,“ segir hún hvað varðar fordóma og mikilvægt sé að segja frá því sem sé í gangi.

Milla segir þau hjónin bæði gegna stöfum þar sem þau láti rödd sína heyrast og það megi aldrei hætta að berjast fyrir mannréttindum. Þau finni fyrir bakslagi í samfélaginu hvað þetta varðar. Hatur eins og þetta þoli illa dagsljósið.

Facebook færslu Péturs má sjá hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×